Fótbolti

Sala Pat­ricio til Rómar gæti opnað dyrnar fyrir Ögmund

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
José Sá, Ögmundur Kristinsson og Rui Patricio.
José Sá, Ögmundur Kristinsson og Rui Patricio. Samsett/Getty Images

Markvörðurinn Rui Patricio er á leið til Roma í ítölsku úrvalsdeildinni. Gæti það leitt af sér kapal sem leiðir til þess að Ögmundur Kristinsson gæti fengið möguleika í marki Grikklandsmeistara Olympiacos.

José Mourinho, nýráðinn knattspyrnustjóri Roma, ætlar að fá landa sinn Patricio í markið. Hinn 33 ára gamli Patrico hefur varið mark Portúgals undanfarin ár og er honum ætlað að leysa Pau López af hólmi en sá var lánaður til Marseille í Frakklandi á dögunum.

Wolves ætlar sér að fylla skarð Patricio með Jósé Sá, portúgölskum markverði Grikklandsmeistaranna. Wolves virðist nær eingöngu horfa til Portúgals þegar kemur að leikmönnum og yrði Sá sjötti Portúgalinn í leikmannahóp liðsins.

Fari svo að þetta gangi eftir og hinn 28 ára gamli Sá verði markvörður Wolves í ensku úrvalsdeildinni gæti Ögmundur Kristinsson, landsliðsmarkvörður Íslands, fengið tækifæri sem aðalmarkvörður Olympiacos.

Hann samdi við félagið fyrir síðustu leiktíð en fékk fá tækifæri þar sem Sá var í fantaformi. Ögmundur spilaði alls fimm leiki fyrir félagið en gætu þeir orðið töluvert fleiri ef fer sem horfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×