Í daglegri tilkynningu sem lögregla sendir á fjölmiðla segir frá því þegar einstaklingur í annarlegu ástandi var handtekinn í miðbænum. Hann hafði þá hent blómapotti í lögreglubíl og var töluvert tjón á bílnum eftir atvikið. Maðurinn var vistaður í fangaklefa í nótt.
Lögregla hafði ýmsum verkefnum að sinna í gærkvöldi í miðbænum. Eins og Vísir greindi frá var tilkynnt um hnífstungu á Hverfisgötu í gær um klukkan 17. Hvergi er þó minnst á hana í tilkynningu lögreglunnar og ekki tókst að fá neinar upplýsingar um það mál í gær.
Í tilkynningunni er minnst á tvær líkamsárásir í miðbænum, eina sem varð rétt eftir miðnætti og aðra sem varð um klukkan hálf tvö í nótt.
Þá var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í Hlíðunum rétt eftir miðnætti og um að einhver hefði brotið rúðu í fyrirtæki í miðbænum um hálftíma síðar.
Lögreglu bárust tilkynningar um þrjár líkamsárásir til viðbótar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu; eina í Árbæ rétt eftir klukkan fimm í gærkvöldi, aðra í Hafnarfirði um kvöldmatarleytið og þá þriðju í Kópavogi eftir klukkan eitt í nótt.
Í tilkynningu lögreglu segir ekkert um hvort þessi mál séu til rannsóknar eða hvort einhver hafi verið handtekinn í tengslum við þau.