Slökkvilið Kaliforníu berst nú við eldana. Vegum hefur verið lokað og íbúum vissra svæða hefur verið gert að yfirgefa heimili sín. Þá hefur slökkvilið í Nevada-fylki fyrirskipað að eigendur búfjár geri ráðstafanir samstundis.
Elding sem skall á norðurhluta Nevada-fylkis um helgina virðist einnig hafa haft mikil áhrif á útbreiðslu eldsins.
Slökkvilið notar meðal annars flugvélar til þess að sprauta vatni á eldinn að ofan frá. Sú aðferð hefur þó gengið treglega fyrir þær sakir að vatnið virðist þorna áður en það nær til jarðar sökum hitans.
Tveir slökkviliðsmenn létust í Arizona um helgina, þegar flugvél hrapaði í baráttu við eldana.

Hitamet hefur verið slegið í Las Vegas en þar hefur hiti náð 47,2 gráðum síðustu daga. Þá hefur hiti í Dauðadalnum svokallaða mælst 54,4 gráður og er það álíka hátt 90 ára gamalt hitamet þar á svæðinu. Sérfræðingar hafa þó lengi dregið eldri mælinguna í efa og því má vera að hitatölur vikunnar hafi verið met.
Aðeins eru nokkrar vikur síðan hættuleg hitabylgja reið yfir Norður-Ameríku, en þar var júní mánuður sá heitasti sem skráður hefur verið.
Sérfræðingar hafa talað um að samhliða hlýnun jarðar megi búast við fleiri óeðlilegum veðursveiflum.