Erlent

Yfir­maður öryggis­mála í haítísku for­seta­höllinni í haldi lög­reglu

Eiður Þór Árnason skrifar
Lögregla stendur nærri veggmynd af Jovenel Moise. Pólitísk upplausn ríkir í landinu eftir morðið á forsetanum.
Lögregla stendur nærri veggmynd af Jovenel Moise. Pólitísk upplausn ríkir í landinu eftir morðið á forsetanum. Ap/Joseph Odelyn

Dimitri Herard, yfirmaður öryggismála í haítísku forsetahöllinni, er nú í haldi lögreglu í tengslum við rannsókn á morðinu á forsetanum.

Herard var færður í gæsluvarðhald að lokinni yfirheyrslu í gær, að sögn samstarfsmannsins Carls Martin sem vinnur nú að málsvörn hans. Að sögn Martin fékk Herard þau svör frá lögreglu að ákvörðun um gæsluvarðhald hans hafi „komið að ofan.“

Þetta kemur fram í frétt CNN en Martin segist hafa rætt við Herard eftir yfirheyrsluna í gær. Þá hafi lögregla verið búin að taka vopn hans og síma og færa Herard stuttlega í einangrun af öryggisástæðum.

Pólitísk upplausn ríkir á Haítí eftir að hópur manna réðst inn í forsetahöllina þann 7. júlí og myrti Jovenel Moise, forseta landsins.

Að minnsta kosti þrír stjórnmálamenn í landinu telja sig nú vera leiðtoga landsins og bætist stjórnarkreppan ofan á vaxandi völd glæpaklíka í landinu.

Telja að minnst 28 tengist morðinu

Fjöldi manna er í haldi lögreglu vegna málsins en fram hefur komið að þeirra á meðal séu bandarískir ríkisborgarar.

Þá var greint frá því í fyrradag að nokkrir þeirra sem taldir eru tengjast morðinu á forsetanum hafi áður starfað sem upplýsingaaðilar fyrir bandarísk löggæsluyfirvöld, þar á meðal alríkislögregluna.

Lögreglan á Haíti telur að minnst 28 einstaklingar tengist morðinu og að margir þeirra hafi verið kólumbískir málaliðar ráðnir í gegnum öryggisfyrirtæki í Flórída. Interpol og bandaríska alríkislögreglan kemur að rannsókn málsins.

Á mánudag handtók lögregla 63 ára gamlan mann sem er grunaður um að hafa stýrt og skipulagt tilræðið. 

Hinn grunaði er læknir af haítískum uppruna sem búið hefur í Flórída í Bandaríkjunum. Christian Emmanuel Sanon kom til síns gamla heimalands á dögunum um borð í einkaþotu og fullyrðir lögreglustjórinn Leon Charles að Sanon hafi ætlað að steypa forsetanum Jovenel Moise af stóli og taka sjálfur við völdunum í landinu. Tveir aðrir eru einnig taldir hafa skipulagt tilræðið.


Tengdar fréttir

Segjast hafa ætlað að handtaka forsetann

Glæpagengi á Haítí og ofbeldi vegna baráttu þeirra um yfirráðasvæði hefur valdið miklum usla undanfarið. Þúsundir hafa þurft af flýja heimili sín vegna átaka og glæpamenn fara ránshendi um heimili og fyrirtæki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×