Lecce greinir frá því á heimasíðu sinni í dag að félagið hafi gert samning við Þóri sem gildi til fjögurra ára, með möguleika á fimmta ári, en hann á þó eftir að fara í læknisskoðun í dag.
Þórir kemur til Lecce frá FH og verður liðsfélagi Brynjars Inga Bjarnasonar sem kom til Lecce frá KA fyrir skömmu.
Báðir voru þeir í íslenska A-landsliðshópnum sem spilaði vináttulandsleiki fyrir einum og hálfum mánuði. Þar lék Þórir sinn fyrsta A-landsleik, í 2-1 tapinu gegn Mexíkó.
Þórir var í íslenska hópnum á EM U21-landsliða í mars og lék þar einn leik, og á samtals sjö leiki að baki fyrir U21-landsliðið.
Þórir kom til FH frá Haukum fyrir þremur árum. Þessi tvítugi miðjumaður hefur þegar leikið 46 leiki í efstu deild og skorað þrjú mörk.
Lecce endaði í 4. sæti ítölsku B-deildarinnar á síðustu leiktíð en féll naumlega úr leik í undanúrslitum umspils um sæti í efstu deild.
Þórir skilur við FH í óvanalegri stöðu, í 10. sæti Pepsi Max-deildarinnar, aðeins tveimur stigum frá fallsæti.