Íslenski boltinn

Sjáðu mörk Sæ­vars Atla og Hjalta á­samt endur­­komu Víkinga í Kefla­­vík

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leiknismenn unnu góðan 2-0 sigur á Stjörnunni í gær.
Leiknismenn unnu góðan 2-0 sigur á Stjörnunni í gær. Vísir/Hulda Margrét

Tveir leikir fóru fram í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu í gærkvöld. Leiknir Reykjavík vann 2-0 sigur á Stjörnunni og Víkingur kom til baka gegn Keflavík og vann 2-1 seiglusigur. 

Sævar Atli Magnússon var að sjálfsögðu á skotskónum er Leiknir Reykjavík tók á móti Stjörnunni. Eftir fína sókn Leiknis strax á 7. mínútu barst boltinn inn á teig þar sem Andrés Ramiro Escobar lagði hann á Sævar Atla sem átti skot í varnarmann og þaðan í netið. 

Um miðbik fyrri hálfleiks áttu heimamenn aftur fína sókn upp vinstri vænginn. Boltinn barst á Emil Berger sem lyfti honum fyrir markið þar sem Hjalti Sigurðsson stökk manna hæst og stangaði boltann í netið.

Staðan orðin 2-0 og reyndust það lokatölur leiksins. 

Klippa: Leiknir 2-0 Stjarnan

Þegar rúmar 20 mínútur voru liðnar af leiknum fékk Adam Árni Róbertsson góða sendingu inn fyrir vörn Víkings. Hann átti í kjölfarið fyrirgjöf sem Sindri Þór Guðmundsson skallaði snyrtilega yfir Þórð Ingason í marki gestanna og staðan 1-0.

Þannig var hún allt fram á 58. mínútu leiksins þegar varamaðurinn Kwame Quee sýndi skemmtileg tilþrif og átti frábæra fyrirgjöf á Nikolaj Hansen sem gat ekki annað en skorað. Hans 11. mark í sumar og staðan orðin 1-1. 

Tuttugu mínútum síðar skoraði Helgi Guðjónsson - annar varamaður - stórkostlegt mark en hann fór einkar illa með Magnús Þór Magnússon, fyrirliða Keflavíkur, í aðdraganda marksins. 

Staðan orðin 2-1 og reyndust það lokatölur leiksins.

Klippa: Keflavík 1-2 Víkingur

Hér að neðan má sjá svo sjá markasyrpu umferðarinnar.

Klippa: Markasyrpa

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×