Sport

Aly Raisman stolt af Simone Biles: Það þurfti hugrekki til að hætta keppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Simone Biles fylgist með liðsfélögum sínum keppa í gær en hún breytti sér í klappstýru í liðakeppninni eftir að hafa hætt í miðri keppni.
Simone Biles fylgist með liðsfélögum sínum keppa í gær en hún breytti sér í klappstýru í liðakeppninni eftir að hafa hætt í miðri keppni. AP/Ashley Landis

Það hafa miklu fleiri hrósað fimleikakonunni Simone Biles en hafa gagnrýnt hana eftir óvænta atburði gærdagsins.

Stóra málið á Ólympíuleikunum í Tókýó í gær var það þegar ein stærsta íþróttastjarna heims, fimleikakonan Simone Biles, hætti í miðri keppni eftir aðeins eitt mislukkað stökk í liðakeppninni. Biles sagðist hafa hætt keppni til að passa upp á andlega heilsu sína.

Biles hefur fengið mikinn stuðning á samfélagsmiðlum og hún fékk líka stuðning frá fyrrum liðsfélaga sínum í bandaríska fimleikalandsliðsins, Aly Raisman.

Biles og Aly Raisman unnu Ólympíugull saman í liðakeppninni á leikunum í Ríó 2016 en bandaríska liðið náði aðeins í silfur í gær án þátttöku hinnar mögnuðu Biles.

„Það var svo mikil pressa á henni. Ég hef aldrei séð aðra eins pressu á fimleikamanni eða jafnvel á íþróttamanni á Ólympíuleikum. Ég get ekki ímyndað mér hversu erfitt þetta var fyrir hana,“ sagði Aly Raisman í viðtali við ESPN.

„Ég er mjög stolt af Simone og hennar ótrúlega hugrekki að stíga fram og segja: Ég ætla ekki að gera þetta í dag,“ sagði Raisman.

Raisman var fyrirliði fimleikasveita Bandaríkjanna sem unnu gullverðlaun í liðakeppni í London 2012 og í Ríó 2016.

„Hún er ennþá mögnuð fimleikakona. Ég held að hún sé að sýna okkur öllum að það sé virkilega mikilvægt fyrir alla að setja andlega heilsu okkar í forgang,“ sagði Raisman.

Simone Biles vildi fyrst ekki gefa það upp í gær hvort hún ætli eða ætli ekki að keppa í fjölþrautinni eða í keppninni á einstökum áhöldum. Það kom síðan í ljós í morgun að hún hefur líka dregið sig úr keppni í fjölþrautinni og hefur væntanlega lokið keppni á þessum Ólympíuleikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×