Innlent

Vill upp­­­lýsingar beint af kúnni

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Helga Vala er formaður velferðarnefndar, sem kemur saman í næstu viku ef allt gengur eftir.
Helga Vala er formaður velferðarnefndar, sem kemur saman í næstu viku ef allt gengur eftir. vísir/vilhelm

Helga Vala Helga­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar og for­maður vel­ferðar­nefndar, hefur farið fram á það að nefndin komi saman í miðju sumarfríi þingmanna til að fara yfir stöðu mála í nýrri bylgju far­aldursins. Hún segir mikil­vægt að nefndar­menn fái tæki­færi til að bera spurningar undir helstu sér­fræðinga landsins.

„Þetta snýst bara um að við fáum bestu mögu­legu upp­lýsingarnar um stöðuna í far­aldrinum. Og eigum þetta milli­liða­lausa sam­tal og getum spurt við­eig­andi sér­fræðinga þeirra spurninga sem okkur finnst skipta máli,“ segir Helga Vala í sam­tali við Vísi.

Hingað til hafi nefndar­menn ein­göngu að­gang að helstu upp­lýsingum um gang mála í gegnum fjöl­miðla eins og aðrir.

Vita hvernig landið liggur eftir helgi

Til að fundurinn fari fram verða allir nefndar­menn að sam­þykkja það. Helga segist enn bíða svara frá nokkrum nefndar­mönnum en hinir sem hafi svarað fundar­boðinu hafi tekið vel í það. Hún hefur ekki á­hyggjur af að ein­hver sé mót­fallinn því að fundurinn fari fram.

Fundurinn yrði fjar­fundur og haldinn eftir helgi, stefnan er sett á mið­viku­daginn eftir viku.

„Svo verður mögu­lega komin önnur staða eftir helgi. Þá vitum við betur hvernig landið liggur, hvernig heil­brigðis­kerfið þoli þetta og svona. Við erum bara að sinna okkar skyldum,“ segir Helga Vala.

Spurð hvað það sé sem brenni á nefndar­mönnum að fá að vita segir hún það ekkert eitt á­kveðið. En það sé mikil­vægt að þing­menn í nefnd sem hefur heil­brigðis­mál á sinni könnu geti átt beint sam­tal við sér­fræðinga um stöðuna.

„Við fáum engar aðrar upp­lýsingar en bara það sem kemur fram á upp­lýsinga­fundum og í fjöl­miðlum. Við þurfum að fá þessar upp­lýsingar líka beint og geta þá spurt þeirra spurninga sem að kvikna hjá okkur.“

Helga býst við að kalla sótt­varna­lækni á fundinn auk land­læknis, yfir­læknis smitsjukdóma­deildar Land­spítala og fleiri sér­fræðinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×