Erlent

Hreyflar nýrrar einingar fóru óvænt í gang og færðu geimstöðina af réttri sporbraut

Samúel Karl Ólason skrifar
Hér má sjá skjáskot af beinni útsendingu af því þegar Nauka tengdist geimstöðinni í dag.
Hér má sjá skjáskot af beinni útsendingu af því þegar Nauka tengdist geimstöðinni í dag. AP/Roscosmos

Eftir að ný rússnesk eining var tengd við Alþjóðlegu geimstöðina í dag, kviknaði óvænt á hreyflum einingarinnar svo geimstöðin færðist úr stöðu sinni á braut um jörðu. Hreyflarnir voru í gangi í nokkrar mínútur og voru hreyflar annarra eininga geimstöðvarinnar notaðir til að vega upp á móti hinum.

Engan sakaði og Geimvísindastofnun Bandaríkjanna segir að geimstöðin sé komin aftur á réttan stað.

Nauka-einingin var tengd við geimstöðina á öðrum tímanum í dag, að íslenskum tíma. Skömmu fyrir klukkan fimm fóru hreyflar einingarinnar í gang, samkvæmt umfjöllun Spaceflightnow.

Ekki liggur fyrir hvað olli því að hreyflar Nauka fóru í gang.

Til stendur að skjóta Starliner, nýju geimfari Boeing, til geimstöðvarinnar á morgun. Nú er hins vegar búist við því að geimskotinu verði frestað á meðan vísindamenn reyna að komast til botns í því af hverju kviknaði á hreyflunum.

Í frétt Reuters segir að frá því Nauka var skotið á loft í síðustu viku hafi ýmsar veilur litið dagsins ljós sem ollu áhyggjum um að tenging einingarinnar myndi ekki ganga snurðulaust fyrir sig.

NASA segir allt vera orðið eðlilegt um borð í geimstöðinni og áhöfnin hafi aldrei verið í neinni hættu.

Halda á blaðamannafund um málið á eftir.

Fyrr á þessu ári tilkynnti Rússar að þeir ætluðu að segja sig frá geimstöðinni árið 2025. Það kom þó ekki í veg fyrir að Nauka var skotið á loft. Þróun einingarinnar hófst fyrir meira en tuttugu árum og átti einingin að vera varaeining fyrir Zarya, sem er ein eining geimstöðvarinnar.

Nauka var svo breytt í gegnum árin og á eiga ýmsar rannsóknir að fara fram um borð í einingunni. Þar má einnig finna vistarverur fyrir geimfara, klósett, nýjan vatns- og lofthreinsibúnað og vélarm frá Geimvísindastofnun Evrópu (ESA).

Geimskoti Nauka hafði þó verið frestað ítrekað vegna vandræða við þróun og byggingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×