Frá árinu 2014 hefur havartiostur notið verndar Evrópusambandsins en samkvæmt reglum þess má ostur einungis heita havarti ef hann er framleiddur í Danmörku.
Aðalsteinn H. Magnússon sölustjóri MS segir að fyrirtækinu hafi ekki borist beiðni um að breyta nafninu heldur hafi verið ákveðið að breyta því áður en til þess kæmi.
Hann segir að MS fylgist vel með reglum um afurðavernd, sérstaklega eftir að kvörtun barst vegna notkunar íslenskra fyrirtækja á nafninu fetaostur. Það sem hét áður fetaostur heitir nú salatostur hjá öllum íslenskum framleiðendum.
Aðalsteinn segist hafa skoðað kæla matvöruverslana og séð að þar sé að finna nokkrar tegundir osts undir nafninu havarti sem er ekki framleiddur í Danmörku.
Ein þeirra er framleidd af íslenska mjólkurvöruframleiðandanum Bíobú. Helgi Rafn Gunnarsson framkvæmdastjóri Bíobús segir í samtali við Vísi að hann hafi orðið var við breytingu MS. Hann hafi þó ekki fengið neina beiðni að utan um að breyta um nafn á ostinum.
Hann segir þó að til standi að endurskoða nafn ostsins en ekki fyrr en fyrirtækið klárar nokkuð stóran lager af umbúðum sem bara nafnið havarti.