Erlent

Bólu­setning skil­yrði fyrir ferða­lögum til Banda­ríkjanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Joe Biden Bandaríkjaforseti. Stjórn hans skoðar nú hvernig hægt sé að létta á ferðatakmörkunum til landsins, til dæmis með því að krefjast þess að erlendir ferðalangar séu bólusettir gegn kórónuveirunni.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. Stjórn hans skoðar nú hvernig hægt sé að létta á ferðatakmörkunum til landsins, til dæmis með því að krefjast þess að erlendir ferðalangar séu bólusettir gegn kórónuveirunni. AP/Susan Walsh

Bandarísk stjórnvöld íhuga nú að gera bólusetningu gegn Covid-19 að skilyrði fyrir flesta erlenda ferðalanga sem þangað koma. Ferðalög erlendra ferðamanna til Bandaríkjanna eru enn verulega takmörkuð vegna faraldursins.

Starfshópar á vegum Hvíta hússins kanna nú hvernig hægt er að slaka á takmörkunum á ferðalög sem gripið var til vegna kórónuveirufaraldursins. Eins og stendur mega erlendir ferðalangar sem hafa dvalið nýlega í Kína, á Schengen-svæðinu, Bretlandi, Írlandi, Brasilíu, Suður-Afríku eða Indlandi ekki koma inn í Bandaríkin.

AP-fréttastofan segir að ríkisstjórn Joes Biden forseta taki nú fyrstu skrefin í átt að því að gera bólusetningu gegn Covid-19 að forsendu fyrir því að flestir erlendir ferðamenn fái að koma til landsins. Það yrði liður í að slaka á ferðatakmörkununum sem eru í gildi. Fáar undanþágur yrðu á þeirri kröfu.

Fyrr í dag kallaði forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) eftir því að þjóðir heims biðu með endurbólusetningar þegna sinna til þess að tryggja að þróunarríki þar sem fáir hafa fengið fyrsta skammt af bóluefni hafi aðgengi að efnunum.

Jen Psaki, blaðafulltrúi Hvíta hússins, sagði að Bandaríkjastjórn ætlaði sér ekki að verða við þeim tilmælum WHO. Bandaríkin væru fær um að flytja út bóluefni til þróunarríkja á sama tíma og þau endurbólusettu eigin þegna, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.


Tengdar fréttir

WHO hvetur til að beðið verði með endur­bólu­setningar

Forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar vill að þjóðir heims fresti því að endurbólusetja þegna sína gegn Covid-19 til þess að tryggja framboð á bóluefni fyrir lönd þar sem fáir hafa fengið fyrsta skammt ennþá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×