Íslenski boltinn

„Ég sprakk í fyrri hálfleik“

Atli Arason skrifar
Ragnar Sigurðsson yfirgaf Rukh Lviv og er kominn heim í Fylki.
Ragnar Sigurðsson yfirgaf Rukh Lviv og er kominn heim í Fylki. mynd/fcrukh.com

Ragnar Sigurðsson spilaði í kvöld sinn fyrsta leik í efstu deild á Íslandi í 15 ár.

Ragnar hefur ekki spilað mikinn fótbolta undanfarið síðan hann yfirgaf herbúðir Rukh Lviv í Úkraínu og það vantar aðeins upp á leikformið hjá þessum reynslumikla miðverði.

„Ég sprakk í fyrri hálfleik eftir 20-30 mínútur,“ sagði Ragnar og hló áður en hann bætti við, „ég vissi að ég myndi komast yfir það. Ég vissi ekki hvernig ég myndi vera eftir hálfleikinn en það var vitað að ég myndi ekki klára 90 mínútur. Þegar ég fann að ég var að vera meira ‘liability‘ heldur en að gera eitthvað gagn þá bað ég um skiptingu,“ svaraði Ragnar aðspurður út í standið á líkamanum.

Keflvíkingar eru eflaust sáttari en Fylkismenn við stigið í kvöld. Fylkir fékk þó nokkur hættuleg færi til að klára leikinn í kvöld en inn vildi boltinn ekki.

„Mér fannst þetta hörku leikur. Ágætis hraði og eitthvað um færi. Mér fannst við eiga fleiri færi í þessum leik og áttum að klára hann. Keflavík spilaði samt mjög vel á köflum, þeir eru með nokkra tekníska leikmenn þannig að jafnteflið er kannski allt í lagi en mér fannst við samt eiga þetta meira skilið.“

„Þetta er bara annar leikurinn síðan ég kom. Við erum ekki alveg að ná að klára færin okkar nógu vel. Svona eins og í síðasta leik þar sem maður fann að þetta er ekki að fara að detta fyrir okkur. Við vorum samt beittari í dag og mér hélt að markið væri að fara að detta en þetta er eitthvað svona augnablik sem við erum í. Það er allavega jákvætt að við erum að sækja vel og hratt og skapa okkur færi, við getum alltaf byggt á því.“

Ragnar er ánægður með heimkomuna og er ánægður hvernig fyrstu dagarnir hans í Árbænum hafa þróast.

„Það eru skemmtilegir strákar í liðinu og fínar æfingar. Það hefur verið auðvelt að detta inn í þetta og ég þekki Fylkis svæðið mjög vel. Þetta er búið að vera mjög gott,“ sagði Ragnar Sigurðsson, leikmaður Fylkis, að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×