Fótbolti

Birkir neitaði til­boði Crotone | SPAL á­huga­samt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Birkir í leik með Brescia.
Birkir í leik með Brescia. EPA-EFE/SIMONE VENEZIA

Íslenski landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason er enn samningslaus eftir að hafa spilað með Brescia í ítölsku B-deildinni á síðustu leiktíð. Hann sagði takk en nei takk við B-deildarlið Crotone um liðna helgi og því enn óvíst hvar hann mun spila á komandi leiktíð.

Hinn 33 ára gamli Birkir átti fínt tímabil með Brescia á síðustu leiktíð. Eftir slæma byrjun rétti liðið úr kútnum og endaði tímabilið í 7. sæti. Liðið féll svo úr leik í umspili um sæti í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni, eftir tap gegn Cittadella.

Birkir varð samningslaus síðasta vor og hefur haldið möguleikunum opnum. Hann virtist vera búinn að semja við Brescia á dögunum en miðað við frétt ítalska blaðamannsins Gianluca Di Marzio reyndi Crotone að semja við íslenska landsliðsmanninn um liðna helgi.

Það gekk ekki upp og virðist sem SPAL sé næst í röðinni að reyna lokka Birki í sínar raðir. Það er ljóst að mörg lið falast eftir kröftum Birkis og verður forvitnilegt að sjá hvar hann lendir. Allt bendir þó til þess að það verði í Serie B á Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×