Fótbolti

Messi ánægður í París: Markmiðið er að halda áfram að vinna titla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi við hlið forseta PSG, Nasser Al-Al-Khelaifi á blaðamannafundi í París í morgun.
Lionel Messi við hlið forseta PSG, Nasser Al-Al-Khelaifi á blaðamannafundi í París í morgun. AP/Francois Mori

Lionel Messi hélt blaðamannafund í París í dag þar sem hann ræddi um komu sína til Frakklands og framhaldið sem leikmaður Paris Saint Germain.

„Það var erfitt að fara frá Barcelona eftir svona mörg ár en ég var hamingjusamur um leið og ég kom hingað til Parísar. Ég vil byrja að æfa sem fyrst og vildi ganga frá þessu strax,“ sagði Lionel Messi.

„Ég hef notið tímans í París frá fyrstu mínútu sem ég kom til borgarinnar. Ég vil komast á æfingu með liðsfélögum mínum og byrja þennan nýja tíma í mínu lífi,“ sagði Messi.

Leystu öll vandmál og gerðu það fljótt

„Ég vil þakka forsetanum og öllum hér fyrir móttökurnar sem og hversu fljótt við gátum gengið frá samningnum. Þetta var slungin staða en þeir leystu öll vandamál og gerðu það fljótt,“ sagði Messi.

„Ég er ánægður með að vera kominn hingað. Ég vil áfram spila fótbolta og ætla mér að vinna titla alveg eins og þegar ég hóf ferilinn. Þetta félag er tilbúið að berjast um alla titla. Það er mitt markmið að halda áfram að vinna titla og þess vegna er ég kominn hingað. Ég vona að það takist,“ sagði Messi.

„Ég vill þakka París fyrir móttökurnar en þær hafa verið klikkaðar. Ég er viss um að ég mun njóta tíma míns með liðinu og við ætlum að berjast fyrir að ná markmiðum félagsins,“ sagði Messi en hvenær spilar hann fyrsta leikinn?

Veit ekki hvenær hann spilar fyrsta leikinn

„Ef ég segi alveg eins og er þá veit ég það ekki. Ég var í fríi og það er allt nýtt fyrir mig. Ég ræddi við þjálfarateymið í gær og líklega þarf ég á undirbúningstímabili að halda,“ sagði Messi.

„Ég byrja að æfa og vonandi get ég spilað sem fyrst en það fer eftir því hvort starfsliðið gefur mér grænt ljós,“ sagði Messi.

Það gæti farið svo að Messi mæti Barcelona í Meistaradeildinni og hann var spurður út í þann möguleika.

Yrði samt mjög skrýtið að spila þar í annarri treyju

„Það var flókið að fara frá Barcelona án þess að vita hvar ég myndi enda. Barcelona er heimilið mitt og ég hef verið þar síðan ég var strákur. Þeir vita samt að ég mun koma aftur með sterku liði sem er með það markmið að vinna Meistaradeildina. Ég elska að vinna og að hafa stór markmið. Ég veit að markmið mín og PSG eru þau sömu,“ sagði Messi.

„Ég veit ekki hvort við mætum Barcelona. Það væri samt indælt að fara aftur til Barcelona. Ég vona að þá verði áhorfendur leyfðir vegna faraldursins. Það yrði samt mjög skrýtið að spila þar í annarri treyju en það er möguleiki og við verðum bara að sjá til,“ sagði Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×