Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs hf., segir bilun hafa komið upp þegar sett var upp nýtt dælustýringakerfi á bensínstöðvum Orkunnar. Bilunin olli því að greiðslur viðskiptavina sem nota svokallaðan orkulykil bárust Orkunni ekki.
Því brá mörgum viðskiptavinum við það að fá afturvirkan reikning í heimabanka. Sem var í sumum tilvikum vegna margra bensínstöðvarferða. Árni Pétur segir að þetta hafi valdið Orkunni og viðskiptavinum hennar mikilli armæðu. Nú sé hins vegar búið að laga bilunina og fyrirtækið sé að leysa málin með viðskiptavinum sínum.
Árni Pétur segir að ákveðið hafi verið að halda viðskiptavinum alveg skaðlausum vegna bilunarinnar. Þannig þurfi fólk ekki að bera kostnað vegna mögulegs yfirdráttar eða vaxtagreiðslna.
Haft hafi verið samband við alla sem urðu fyrir barðinu á biluninni og aðstoð boðin svo hægt væri að leysa vandann.