Erlent

Minnst 44 eru látin í flóðum í Tyrklandi

Árni Sæberg skrifar
Flóðin hafa valdið gríðarlegri eyðileggingu í bænum Bozkurt.
Flóðin hafa valdið gríðarlegri eyðileggingu í bænum Bozkurt. AP Photo

Gríðarleg flóð hafa verið í Tyrklandi síðustu daga. Tala látinna er komin í 44.

Flóðin eru aðrar náttúruhamfarirnar sem orðið hafa landinu það sem af er þessum mánuði en fyrr í mánuðinum geisuðu miklir gróðureldar í Tyrklandi. Yfirvöld í norðurhluta Tyrklands höfðu rétt sleppt orðinu að búið væri að ráða niðurlögum gróðureldanna þegar flóðin riðu yfir.

Samkvæmt frétt The Guardian hafa flóðin valdið mikilli eyðileggingu í norðurhluta Tyrklands. Til að mynda er fjöldi húsa í bænum Bozkurt við Svartahaf hruninn og hefur nokkur fjöldi látinna fundist í rústum í bænum.

„Þetta er fordæmalaust. Það er ekkert rafmagn. Farsímar eru dauðir. Það er ekkert símasamband. Við gátum hvergi fengið fréttir,“ segir Ilyas Kalabalik íbúi Bozkurt. 

„Við vissum ekki hvort vatnshæð væri að hækka eða ekki, hvort það flæddi inn í húsið eða ekki. Við vorum bara að bíða, konurnar og börnin voru skelfingu lostin,“ bætir hann við.

Miklum fjölda íbúa Bozkurt er enn saknað og segir Ilyas Kalabalik að margra fjölskyldumeðlima og vina hans sé saknað.

Um 45 sentímetrar af úrkomu féllu í þorpi nálægt Bozkurt á aðeins þremur dögum. Vatnsflaumurinn hreif með sér bíla, eyðilagði brýr og olli rafmagnsleysi í hundruðum þorpa í nágrenni Bozkurt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×