Jarmysh er bannað að yfirgefa heimili sitt yfir nótt, taka þátt í samkomum og að skipta um heimilisfang án þess að gera fangelsisyfirvöldum viðvart, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Hún á að hafa brotið sóttvarnareglur stjórnvalda með því að taka þátt í því sem yfirvöld telja ólögleg mótmæli til stuðnings Navalní í vetur. Navalní situr nú í fangelsi þar sem hann afplánar tveggja og hálfs árs dóm fyrir að hafa rofið skilorð eldri dóms sem hann hlaut.
Fleiri bandamenn Navalní hafa verið ákærðir fyrir samskonar brot og Jarmysh. Ljúbov Sobol, náinn ráðgjafi hans, er talin hafa yfirgefið Rússland fyrr í þessum mánuði.
Jarmysh segir að málið gegn sér eigi sér pólitískar rætur. Stjórn Vladímírs Pútín forseta hefur gengið hart fram gegn stjórnarandstöðunni í landinu og frjálsum fjölmiðlum undanfarna mánuði í aðdraganda þingkosninga sem fara fram í haust. Samtök Navalní voru lýst ólöleg öfgasamtök fyrr í sumar sem þýðir að margir bandamenn hans eru ekki kjörgengir í kosningunum.
Navalní var talinn hafa brotið gegn skilorði fangelsisdóms sem hann hlaut fyrir fjárdrátt, sem hann segir að hafi einnig átt sér pólitískar rætur, þegar hann dvaldi í Þýskalandi í fimm mánuði þar sem hann náði sér eftir taugaeiturtilræði í ágúst í fyrra. Stjórn Pútín hefur verið sökuð um að standa að tilræðinu en hún hefur svarið þær sakir af sér.