Erlent

WHO varar við fals­bólu­efnum og kallar eftir að þau verði tekin úr um­ferð

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Heilbrigðisstarfsmaður bólusetur hér annan heilbrigðisstarfsmann með bóluefni Covishield í Indlandi.
Heilbrigðisstarfsmaður bólusetur hér annan heilbrigðisstarfsmann með bóluefni Covishield í Indlandi. Sanjeev Verma/Hindustan Times via Getty

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) segist hafa orðið þess áskynja að falsbóluefni við kórónuveirunni væru í umferð í Indlandi og Afríku. Þeir skammtar sem vitað er af hafa verið teknir úr umferð.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að yfirvöld í Indlandi og nokkrum Afríkulöndum hafi í þessum og síðasta mánuði gert upptæka skammta af bóluefni sem sagt var vera bóluefnið Covishield, sem er mest notaða bóluefnið í Indlandi. Framleiðandi bóluefnisins hefur þá staðfest að efnið sem var gert upptækt sé ekki hið raunverulega bóluefni.

WHO hefur sagt að falsbóluefni, það er að segja efni sem markaðssett eru sem samþykkt bóluefni frá raunverulegum lyfjafyrirtækjum en eru það ekki, væru ógn við lýðheilsu á heimsvísu og kallað eftir því að þau verði tekin úr umferð. Heilbrigðisyfirvöld í Indlandi eru þá sögð rannsaka málið.

„Við eigum sterkt kerfi sem ætlað er að koma í veg fyrir mál eins og þetta, en eftir að þetta mál kom upp viljum við aðeins tryggja að enginn Indverji hafi fengið falsbóluefni,“ er haft eftir ónafngreindum embættismanni innan indverska heilbrigðiskerfisins.

Indversk stjórnvöld stefna að því að bólusetja alla íbúa landsins fyrir lok ársins 2021, en yfir 486 milljónir skammta af bóluefni Covishield hafa þegar verið gefnir í landinu. Hátt í 1,4 milljarðar manna búa í landinu, sem hefur orðið afar illa úti í kórónuveirufaraldrinum.

Yfir 32 milljónir manna hafa fengið Covid-19 í landinu, svo vitað sé, og um 432 þúsund manns látið lífið af völdum sjúkdómsins. Sérfræðingar telja þó að tölur yfir smitaða og látna séu stórlega vanáætlaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×