Fótbolti

Rifti samningi sínum við Roma og samdi við erki­fjendurna í Lazio

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pedro fagnar marki gegn Lazio á síðustu leiktíð. Hann mun nú spila með Lazio.
Pedro fagnar marki gegn Lazio á síðustu leiktíð. Hann mun nú spila með Lazio. Claudio Pasquazi/Getty Images

Spánverjinn Pedro er genginn í raðir ítalska knattspyrnufélagsins Lazio. Það sem vekur athygli við þessi félagaskipti er að Pedro lék með Roma á síðustu leiktíð en hefur nú skipt um félag í Rómarborg, eitthvað sem fáir hafa gert í gegnum tíðina.

Hinn 34 ára gamli Pedro átti tvö ár eftir af samningi sínum er síðasta tímabili lauk. Eftir að Roma réð José Mourinho ákváðu allir að best væri fyrir leikmanninn, sem og félagið, að rifta einfaldlega samningnum og fara í sitthvora áttina.

Pedro virðist hins vegar líða vel í Róm og ákvað því að fara sem styst. Hann var í dag tilkynntur sem leikmaður Lazio og mun leika í treyju númer 9 hjá félaginu. Hjá Lazio hittir hann fyrir Maurizio Sarri en sá þjálfari Pedro hjá Chelsea tímabilið 2018-2019.

Lazio lenti í 6. sæti Serie A-deildarinnar á síðasta tímabili en vonast til að hinn sigursæli og reynslumikli Pedro geti hjálpað liðinu að ná enn betri árangri á komandi leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×