Fótbolti

Messi enn fjarverandi er PSG fagnaði sigri

Valur Páll Eiríksson skrifar
Mbappé skoraði í kvöld.
Mbappé skoraði í kvöld. AP Photo/Francois Mori

Paris Saint-Germain er með fullt hús stiga á toppi frönsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eftir 4-2 útisigur á Brest í kvöld. Liðið þurfti að hafa fyrir sigrinum.

Messi var ekki í leikmannahópi Parísarliðsins en hann er enn að koma sér í form fyrir komandi leiktíð eftir langt sumar með Argentínu í Suður-Ameríkukeppninni. Sergio Ramos var sömuleiðis fjarverandi en hann verður frá í einn til tvo mánuði vegna kálfameiðsla.

Landi Ramosar, Ander Herrera, kom PSG yfir í kvöld með marki á 23. mínútu leiksins. Kylian Mbappé tvöfaldaði forystuna á 36. mínútu en Franck Honorat minnkaði muninn sex mínútum síðar.

2-1 stóð í hléi en Senegalinn Idrissa Gana Gueye endurnýjaði tveggja marka forskot PSG eftir stoðsendingu varamannsins Julians Draxler á 73. mínútu. Benínmaðurinn Steve Mounié, fyrrum framherji Huddersfield á Englandi, minnkaði muninn á ný fyrir Brest fimm mínútum fyrir leikslok en Ángel Di María, sem var að spila sinn fyrsta leik á tímabilinu, innsiglaði 4-2 sigur PSG eftir stoðsendingu frá nýliðanum Achraf Hakimi í uppbótartíma.

Paris er með níu stig eftir fyrstu þrjá leikina á toppi deildarinnar en Angers og Clermont Foot geta jafnað þá að stigum vinnist þeirra leikir um helgina. Brest er með tvö stig og leitar enn síns fyrsta sigurs í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×