Ungverjar voru fyrstir ríkja Evrópusambandsins til að bjóða þegnum sínum örvunarskammt gegn kórónuveirunni og eiga um átta milljónir bóluefnaskammta á lager. Tæplega 190 þúsund Ungverjar hafa þegar fengið örvunarskammt.
Á fréttamannafundi með Peter Szijjarto, utanríkisráðherra Ungverjalands, í gær kallaði Tedros eftir tveggja mánaða hléi á örvunarskömmtum hjá ríkari þjóðum heims og þau sýndu fátækari þjóðum meiri samstöðu til að hægt verði að koma meira bóluefni til þeirra.
Hann lýsti vonbrigðum yfr því hvað lítið hefði verið gefið af bóluefnum til fátækari ríkja, sem mörg hver berðust í bökkum með að bólusetja þegna sína með fyrstu skammtinum. Af 4,8 milljörðum skammta bóluefna sem dreift hefði verið í heiminum hefðu 75 prósent farið til tíu ríkja en aðeins 2 prósent til ríkja í Afríku.
Ísland er í hópi þeirra ríkja sem byrjað hafa að gefa þegnum sínum örvunarskammt gegn Covid-19.