Fótbolti

Arnar Þór segir Andra Lucas einn af okkar efni­legustu leik­mönnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen er í A-landsliðshópi Íslands sem leikur þrjá heimaleiki í september.
Andri Lucas Guðjohnsen er í A-landsliðshópi Íslands sem leikur þrjá heimaleiki í september. Mynd/KSÍ

Andri Lucas Guðjohnsen er í A-landsliðshópnum sem mætir Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi í undankeppni HM 2022 á Laugardalsvelli. Þetta er í fyrsta sinn sem Andri Lucas er valinn í íslenska A-landsliðið.

„Andri Lucas er einn af okkar efnilegustu leikmönnum. Hann spilar með varaliði Real Madrid sem spilar í deildarkeppni á Spáni. Þar er spilaður alvöru fullorðins fótbolti,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslands, um valið á Andra Lucas. Varalið Real Madrid leikur í öðrum riðli Primera RFEF-deildarinnar.

„Hann meiðist fyrir ári síðan en hefur tekið heilt undirbúningstímabil með varaliði Real. Þeir hafa spilað fullt af leikjum og hann er búinn að spila marga leiki á undirbúningstímabilinu.“

„Andri Lucas, alveg eins og Ísak Bergmann Jóhannesson, Andri Fannar Baldursson og þeir ungu leikmenn sem eru í hópnum sem eru að stíga sín skref og er á mjög góðum stað á sínum ferli. Þarna er unga orkan og ferskleikinn kemur inn og hjálpar reynslunni.“

Eiður Smári Guðjohnson, aðstoðarþjálfari landsliðsins, tók næst til máls en hann er einnig faðir Andra.

„Andri er í raun sterkur í öllu. Hann er mikill markaskorari ásamt því að vera góður að tengja spil. Hann er mjög „heilsteyptur“ sem framherji. Við þjálfararnir ræddum þetta val um daginn. Ég er bara aðstoðarþjálfari, ég stend með þeirri ákvörðun sem Arnar Þór tekur. Sama og með Svein Aron Guðjohnsen. Þegar hann er valinn í hópinn þá stíg ég hálfpartinn til hliðar.“

„Við ákváðum þetta þegar við tókum við. Þegar það kemur að drengjunum mínum verð ég að ýta því til hliðar. Við ákváðum það þegar við tókum við U-21 árs landsliðinu.“

„Við höfum séð þetta áður. Voru ekki allir Guðjónssynir í hópnum fyrir X árum síðan, þá á ég við syni Guðjóns Þórðarsonar. Ég get ímyndað mér að það hafi ekki verið auðvelt val fyrir hann. Erum að velja þá leikmenn sem við teljum besta og eiga erindi í verkefnið,“ sagði Eiður Smári að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×