Enski boltinn

Telur Chelsea sigur­strang­legt en Liver­pool stefna á alla titla

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alisson segir Liverpool stefna á að vinna allt galleríið,
Alisson segir Liverpool stefna á að vinna allt galleríið, Catherine Ivill/Getty Images

Alisson, markvörður Liverpool, telur Chelsea eitt sigurstranglegasta lið ensku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir. Hann segir Liverpool samt sem áður stefna á að vinna alla bikara sem í boði eru.

Markvörðurinn var til tals á Sky Sport þar sem hann fór yfir stórleik helgarinnar en seinni partinn á laugardag tekur Liverpool á móti Chelsea á Anfield. Bæði lið hafa unnið tvo fyrstu leiki sína í ensku úrvalsdeildinni og má reikna með hörkuleik.

Alisson segir meiri ógn stafa af Chelsea í ár en á síðustu leiktíð þar sem Romelu Lukaku er genginn í raðir Chelsea á nýjan leik. Markvörðurinn segir hins vegar að Liverpool-liðið sé einnig sterkara þar sem Virgil van Dijk er snúinn aftur eftir erfið meiðsli.

„Hann gefur okkur sjálfstraust með gæðum sínum og áhrifum innan vallar. Hann gefur okkur mjög mikið varnar- og sóknarlega. Í síðasta leik (gegn Burnley) átti hann frábæra sendingu á Harvey Elliott sem bjó til seinna mark leiksins.“ 

„Ég trúi því að Chelsea sé eitt sigurstranglegasta lið deildarinnar í dag. Þeir sýndu hvað þeir geta með því að sigra Meistaradeild Evrópu á síðustu leiktíð,“ sagði Alisson við Sky.

„Við vitum hversu sterkir þeir eru en við erum ekki að einblína of mikið á mótherja okkar. Við verðum að einbeita okkur að okkar spilamennsku og gefa allt sem við eigum.“

„Auðvitað viljum við vinna allar keppnir sem við tökum þátt í. Við viljum vinna Meistaradeild Evrópu, ensku úrvalsdeildina, FA bikarin og deildarbikarinn. Það ætti að vera markmið fyrir lið eins og okkur,“ sagði Alisson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×