Fótbolti

Ronaldo búinn taka föggur sínar og kveðja leikmenn Juventus

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo í leik Juventus og Udinese um síðustu helgi. Svo virðist sem það hafi verið hans síðasti leikur fyrir Gömlu konuna.
Cristiano Ronaldo í leik Juventus og Udinese um síðustu helgi. Svo virðist sem það hafi verið hans síðasti leikur fyrir Gömlu konuna. getty/Emmanuele Ciancaglini

Cristiano Ronaldo hefur kvatt leikmenn Juventus og fátt virðist geta komið í veg fyrir að hann fari til Englandsmeistara Manchester City.

Ronaldo hefur óskað eftir því að yfirgefa Juventus og allt virðist benda til þess að hann hafi spilað sinn síðasta leik fyrir félagið. Fótboltavéfréttin Fabrizio Romano greinir frá því að Ronaldo hafi yfirgefið æfingasvæði Juventus eftir að hafa kvatt leikmenn liðsins.

Jorge Mendes, umboðsmaður Ronaldos, hefur verið í sambandi við City en þess er enn beðið að félagið geri formlegt tilboð í Portúgalann.

City tókst ekki að landa Harry Kane, fyrirliða enska landsliðsins í sumar, en hefur nú beint athygli sinni að Ronaldo.

Portúgalinn er ekki ókunnur ensku úrvalsdeildinni en hann lék með Manchester United á árunum 2003-09 og varð meðal annars þrisvar sinnum Englandsmeistari og einu sinni Evrópumeistari með liðinu.

Ronaldo gekk í raðir Juventus fyrir þremur árum og hefur skorað 101 mark í 134 leikjum fyrir félagið. Hann kom inn á sem varamaður í 2-2 jafntefli Juventus gegn Udinese í 1. umferð ítölsku úrvalsdeildarinnar um helgina. Ronaldo skoraði í uppbótartíma en markið var dæmt af, honum til lítillar ánægju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×