Íslenski boltinn

Veltu fyrir sér hvað Andrea Rut myndi spila marga leiki og hrósuðu um­gjörð Þróttar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andrea Rut Bjarnadóttir í baráttunni gegn Þór/KA.
Andrea Rut Bjarnadóttir í baráttunni gegn Þór/KA. Vísir/Hulda Margrét

Hin kornunga Andrea Rut Bjarnadóttir lék sinn 100. leik fyrir Þrótt Reykjavík er liðið vann Þór/KA 1-0 í Pepsi Max deild kvenna. Frammistaða Andrea Rutar var til umræðu í Pepsi Max Mörkunum.

„Andrea Rut í Þrótti, hún var að spila sinn 100. leik. Það kom mér aðeins á óvart, hún er 2003 módel – kornung. Hvað ætli hún eigi eftir að spila, 700 leiki eða“ spurði Helena Ólafsdóttir, þáttastjórnandi, er umræðan beindist að Andreu Rut.

„Sonný, hvað varst þú að gera árið 2003,“ spurði Margrét Lára og hló. „Ekki að spila í úrvalsdeild allavega,“ svaraði Sonný Lára.

„Hún er búin að standa sig virkilega vel fyrir lið Þróttar. Mér finnst flott umgjörð hjá Þrótti, stelpa að spila 100. leikinn sinn og hún fær blómvönd. Þetta skiptir svo litlu máli, þessir litlu hlutir sem eru stórir fyrir okkur leikmennina gleymast oft,“ sagði Margrét Lára jafnframt.

Vísir tók nýverið saman hversu vel Andrea Rut hefur raunar staðið sig, þá sérstaklega þegar horft er til stoðsendinga. Þó Andrea Rut sé ef til vill ekki að stela fyrirsögnum í hverjum leik er ljóst að hún er mikilvægur partur af öflugu liði Þróttar sem situr sem stendur í 3. sæti deildarinnar og er komið í bikarúrslit.

„Mér fannst virkilega vel gert hjá Þrótti að heiðra hana fyrri leik og þakka henni fyrir vel unnin störf,“ bætti Margrét Lára við að endingu.

Klippa: Andrea Rut Bjarnadóttir og umgjörðin hjá Þrótti Reykjavík

Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×