Dortmund byrjaði tímabilið vel, með 5-2 sigri á Eintracht Frankfurt, en náði ekki að fylgja þeim sigri eftir er liðið tapaði 2-1 fyrir Freiburg síðustu helgi.
Hoffenheim heimsótti þá gulklæddu í kvöld og var staðan í hálfleik markalaus. Bandaríkjamaðurinn Giovanni Reyna kom Dortmund hins vegar í forystu eftir laglega sókn á 49. mínútu.
Christopher Baumgartner jafnaði fyrir Hoffenheim á 61. mínútu en átta mínútum síðar kom Englendingurinn Jude Bellingham Dortmund í forystu á ný.
Allt stefndi í sigur Dortmund en á 90. mínútu leiksins jafnaði Ísraelinn Munas Dabbour fyrir Hoffenheim. Hann var þá einn og yfirgefinn á fjærstönginni eftir hornspyrnu og lagði boltann í netið frá markteig.
Dortmund þeystist upp í sókn þar sem bæði Marius Wolf og Youssoufa Moukoko létu verja frá sér í góðum færum áður en boltinn barst til Erling Braut Håland sem þrusaði boltanum í þaknetið frá markteig, aðeins mínútu eftir jöfnunarmark Dabbours.
Marco Reus fékk dauðafæri til að gulltryggja sigur Dortmund síðar í uppbótartímanum en skaut framhjá af stuttu færi einn gegn markmanni. Það kom þó ekki að sök.
Dortmund vann 3-2 sigur og er með sex stig í deildinni eftir þrjá leiki. Tapið er það fyrsta hjá Hoffenheim sem er með fjögur stig.