Fótbolti

Patrik fer til Noregs eftir landsleikina

Sindri Sverrisson skrifar
Patrik Sigurður Gunnarsson heldur áfram að spila á Norðurlöndum eins og á síðustu leiktíð.
Patrik Sigurður Gunnarsson heldur áfram að spila á Norðurlöndum eins og á síðustu leiktíð. Getty/Matthew Ashton

Markvörðurinn Patrik Sigurður Gunnarsson hefur verið lánaður til Viking í Noregi frá enska úrvalsdeildarfélaginu Brentford til áramóta.

Patrik, sem er tvítugur, er einn þriggja markvarða í íslenska landsliðshópnum sem kemur saman í Laugardal í dag til undirbúnings fyrir næstu þrjá leiki í undankeppni HM.

Hann var að láni í Danmörku á síðustu leiktíð og gerði þar einstaklega gott mót því bæði liðin sem hann lék með, Viborg og Silkeborg, komust upp í úrvalsdeild.

Patrik sat á varamannabekk Brentford þegar liðið mætti Arsenal í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á dögunum, en Brentford er nýliði í deildinni. Nú hefur hins vegar verið ákveðið að hann fari til Noregs þar sem hann mun spila út leiktíðina með Viking.

Viking er í 6. sæti norsku úrvalsdeildarinnar eftir 17 umferðir, með 28 stig. Liðið er sex stigum á eftir toppliði Bodö/Glimt þegar 13 umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×