Fótbolti

Ronaldo klúðraði víti en var samt hetjan | Frakkar misstigu sig

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ronaldo skoraði dramatískt sigurmark.
Ronaldo skoraði dramatískt sigurmark. Stephen McCarthy/Sportsfile via Getty Images

Cristiano Ronaldo skoraði sigurmark Portúgal gegn Írum á sjöttu mínútu uppbótartíma leiks liðanna í forkeppni HM karla í Katar 2022 í kvöld. Hann hafði jafnað leikinn á 89. mínútu.

A-riðill: Klúðraði víti en var svo hetjan

Cristiano Ronaldo, nýr leikmaður Manchester United, brást bogalistin af vítapunktinum eftir stundarfjórðungsleik er Írar heimsóttu Portúgali til Algarve í kvöld. Markalaust var fram á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar John Egan, varnarmaður Sheffield United, kom Írum yfir.

Þeirri 1-0 forystu héldu Írar fram á 89. mínútu þegar Ronaldo bætti upp fyrir vítaklúðrið og jafnaði leikinn áður en hann skoraði sigurmark Portúgal á 96. mínútu leiksins.

Portúgal leiðir riðilinn með tíu stig eftir fjóra leiki en Serbar, sem ekki spiluðu í kvöld, eru þar á eftir með sjö stig eftir þrjá leiki og geta jafnað þá að stigum.

Stigi á eftir Serbíu er lið Lúxemborgar sem vann 2-1 sigur á Aserbaídsjan í kvöld. Mica og Gerson Rodrigues komu Lúxemborg 2-0 yfir en Emin Makhmudov minnkaði muninn fyrir Asera.

Írar, sem hafa einnig tapað fyrir Serbum og Lúxemborg í riðlinum, eru án stiga líkt og Aserar á botninum.

D-riðill: Tíu Frakkar gerðu jafntefli og Úkraína missteig sig

Bosníumenn heimsóttu heimsmeistara Frakka í kvöld og kom Edin Dzeko þeim bosnísku yfir á 36. mínútu. Antoine Griezmann, sem er nýsnúinn aftur til Atlético Madrid frá Barcelona, jafnaði fjórum mínútum síðar.

Jules Koundé, varnarmaður Sevilla sem var þrálátt orðaður við Chelsea í sumar, fékk að líta beint rautt spjald á 51. mínútu leiksins og náðu tíu Frakkar ekki að koma inn marki frekar en þeir bosnísku. Leiknum lauk því 1-1.

Fyrr í dag fóru Úkraínumenn í heimsókn til Kasakstan. Framherjinn Roman Yaremchuk, sem fór mikinn á EM í sumar, kom Úkraínu í forystu eftir aðeins tveggja mínútna leik. 1-0 stóð fram á 74. mínútu þegar Ruslan Valiullin jafnaði fyrir Kasaka.

Í uppbótartíma virtist Danylo Sikan vera að tryggja Úkraínu sigur en Valiullin skoraði sitt annað mark er hann jafnaði öðru sinni fyrir Kasaka á sjöttu mínútu uppbótartíma. Úkraína var að leika sinn fjórða leik í riðlinum og þýðir 2-2 jafntefli dagsins að hver einasti leikur liðsins hefur endað með jafntefli.

Frakkar eru efstir í riðlinum með átta stig eftir fjóra leiki og Úkraínumenn eru þar á eftir fjögur stig eftir jafn marga leiki. Finnar hafa aðeins leikið tvo leiki en eru með tvö stig í þriðja sæti, Bosnía og Kasakstan eru einnig með tvö stig en hafa leikið þrjá leiki hvort.

H-riðill: Markalaust í toppslagnum

Króatar og Rússar deila toppsæti H-riðils eftir markalaust jafntefli liðanna í Rússlandi í kvöld. Bæði eru þau með sjö stig.

Slóvakar koma þar á eftir með sex stig, tveimur á undan Slóveníu, en þau gerðu einnig jafntefli, 1-1 í Ljublijana. Robert Bozenik kom Slóvökum þar yfir áður en Petar Stojanovic jafnaði fyrir Slóvena.

Malta og Kýpur eru einnig með fjögur stig, líkt og Slóvenar, en Kýpur vann 3-0 sigur á Möltu í Miðjarðarhafsslag í kvöld. Cain Attard skoraði tvö marka Möltu og Joseph Mbong eitt gegn liði Kýpur sem lék manni færri frá 40. mínútu leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×