Fótbolti

Enn miðar til sölu á leikinn í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Tólfan verður á leiknum í kvöld en ætlar að hafa þögn fyrstu tólf mínúturnar, og ætlar þannig að sýna þolendum ofbeldis stuðning með táknrænum hætti.
Tólfan verður á leiknum í kvöld en ætlar að hafa þögn fyrstu tólf mínúturnar, og ætlar þannig að sýna þolendum ofbeldis stuðning með táknrænum hætti. vísir/hulda margrét

Innan við 200 miðar eru enn til sölu á leik Íslands og Rúmeníu á Laugardalsvelli í kvöld í undankeppni HM karla í fótbolta.

Minni áhugi er á að sjá leikinn en aðra leiki íslenska karlalandsliðsins um langt árabil. Þrátt fyrir að aðeins hafi 2.200 miðar verið í boði, vegna samkomutakmarkana, er ekki enn uppselt.

Í hádeginu voru um 200 miðar eftir og samkvæmt lauslegri talningu á tix.is eru þeir litlu færri nú, en leikurinn hefst klukkan 18:45.

Leikurinn fer fram í skugga ásakana í garð landsliðsmanna, sem ekki eru í landsliðshópnum nú, um ofbeldi gegn konum.

Boðað hefur verið til samstöðufundar fyrir framan Laugardalsvöll fyrir leik, eða klukkan 17. Í lýsingu á viðburðinum segir meðal annars: 

„Við viljum hvetja alla til að mæta og sýna samstöðu með þolendum íþróttamanna. Við viljum einnig áfram leggja áherslu á að ný stjórn KSÍ ráði nýjan framkvæmdastjóra. Það verður að útrýma eitraðri gerendameðvirkni innan félagsins og það gerist ekki nema með hreinum skildi, nýrri byrjun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×