Fótbolti

Einkunnir Íslands: Brynjar Ingi stóð upp úr

Íþróttadeild skrifar
Brynjar Ingi Bjarnason sést hér nýbúinn að setja boltann í markið og minnka muninn í 2-1.
Brynjar Ingi Bjarnason sést hér nýbúinn að setja boltann í markið og minnka muninn í 2-1. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska karlalandsliðið gerði 2-2 jafntefli við Norður-Makedóníu í J-riðli undankeppni HM 2022 í kvöld. Brynjar Ingi Bjarnason stóð upp úr í íslenska liðinu að mati Vísis.

Norður-Makedóníumenn voru mun sterkari aðilinn lengst af og komust í 0-2 með mörkum Darkos Velkovski og Ezgjans Alioski.

Skiptingar Arnars Þórs Viðarssonar hleyptu nýju lífi í íslenska liðið. Brynjar Ingi minnkaði muninn á 78. mínútu og sex mínútum síðar jafnaði Andri Lucas Guðjohnsen með sínu fyrsta landsliðsmarki.

Brynjar Ingi lék einkar vel í leiknum í dag og Albert Guðmundsson var mjög góður síðustu tuttugu mínúturnar og átti hvað stærstan þátt í að Ísland jafnaði leikinn. Varamennirnir áttu einnig góða innkomu.

Næsti leikur Íslands er gegn Þýskalandi á miðvikudagskvöldið.

Hér fyrir neðan má sjá einkunnir íslensku leikmannanna fyrir leikinn í dag.

Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður 3

Átti að verja skallann frá Churlinov og virkaði seinn niður í marki Alioskis. Nokkrar skylduvörslur. Hefur nýtt þau tækifæri sem hann hefur fengið með landsliðinu illa og verður að gera betur.

Birkir Már Sævarsson, hægri bakvörður 5

Ágætis frammistaða hjá Birki Má í hundraðasta landsleiknum. Nokkuð traustur.

Kári Árnason, miðvörður 5

Fjölmargar slakar sendingar út úr vörninni og of seinn að loka á Alioski í öðru markinu. En ómetanlegt að hafa jafn reynslumikinn mann í vörninni. Lék sinn nítugasta landsleik í dag.

Brynjar Ingi Bjarnason, miðvörður 7 - maður leiksins

Skoraði annað landsliðsmark sitt þegar hann fylgdi eftir skoti Alberts. Bjargaði á ótrúlegan hátt frá Churlinov í uppbótartíma. Átti aðra björgun frá Bardhi undir lok fyrri hálfleiks. Besti leikmaður Íslands í leiknum og kominn til að vera í landsliðinu.

Guðmundur Þórarinsson, vinstri bakvörður 3

Átti frábæra tæklingu þegar hann kom í veg fyrir að Churlinov slyppi í gegn. Tapaði boltanum klaufalega í aðdraganda seinna marksins. Hefur ekki náð að fylgja eftir góðri frammistöðu í júníleikjunum.

Mikael Neville Anderson, hægri vængmaður 2

Algjörlega ósýnilegur og fátt gekk upp hjá Mikael sem var tekinn af velli eftir tæpan klukkutíma. Virkaði kærulaus.

Birkir Bjarnason, miðjumaður 5

Hundraðasti landsleikur Birkis var ekki einn af hans betri. Átti í miklum vandræðum eins og félagar hans á miðsvæðinu og tók lítinn þátt í sóknarleiknum framan af. Spilaði betur eftir því sem á leið.

Andri Fannar Baldursson, miðjumaður 4

Mikið í boltanum en gekk erfiðlega að koma honum fram völlinn. Átti í vandræðum í varnarleiknum. Númeri of lítill í svona leik.

Ísak Bergmann Jóhannesson, miðjumaður 4

Vonbrigði. Skagamaðurinn gerði lítið með boltann og virkaði hálf ragur. Hæfileikarnir eru óumdeildir en hefur ekki enn sýnt þá með landsliðinu.

Albert Guðmundsson, vinstri vængmaður 7

Þvílíkur viðsnúningur hjá Alberti. Gat ekkert fyrstu sjötíu mínúturnar en var frábær síðustu tuttugu mínúturnar og átti stærstan þátt í endurkomu Íslands. Átti beinan þátt í báðum mörkum og var síógnandi undir lokin.

Viðar Örn Kjartansson, framherji 3

Svaf á verðinum í fyrsta markinu sem Churlinov skoraði. Ekki í neinum takti við leikinn og fékk enga þjónustu. Hefur fengið óvænt tækifæri í þessari landsleikjahrinu en nýtt það illa.

Varamenn:

Jón Dagur Þorsteinsson kom inn á fyrir Viðar Örn á 59. mínútu 7

Dúndurinnkoma hjá Jóni Degi. Mjög kraftmikill og kom með nýja vídd í leik íslenska liðsins. Hlýtur að byrja gegn Þjóðverjum.

Arnór Sigurðsson kom inn á fyrir Andra Fannar á 59. mínútu 5

Ekki jafn áberandi og Jón Dagur og Þórir en gerði sitt.

Þórir Jóhann Helgason kom inn á fyrir Mikael Neville á 59. mínútu 6

Flott innkoma hjá Hafnfirðingnum og miðjuspilið lagaðist mikið með tilkomu hans.

Ari Freyr Skúlason kom inn á fyrir Guðmund á 66. mínútu 6

Var flottur þær mínútur sem hann spilaði í sínum áttugasta landsleik og reynsla hans nýttist vel.

Andri Lucas Guðjohnsen kom inn á fyrir Ísak Bergmann á 82. mínútu

Draumainnkoma hjá Andra sem skoraði jöfnunarmark Íslands. Spilaði of stutt til að fá einkunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×