Umfjöllun: Ísland - Þýskaland 0-4 | Aldrei vonarglæta gegn Þjóðverjum

Sindri Sverrisson og Ingvi Þór Sæmundsson skrifa
Jóhann Berg Guðmundsson svekkir sig hér yfir því að hafa klúðrað besta færi Íslands í fyrri hálfleik.
Jóhann Berg Guðmundsson svekkir sig hér yfir því að hafa klúðrað besta færi Íslands í fyrri hálfleik. Vísir/Hulda Margrét

Þýskaland vann 0-4 sigur á Íslandi í J-riðli undankeppni HM 2022 á Laugardalsvelli í kvöld. Þetta var fjórða tap Íslendinga í sex leikjum í undankeppninni og þeir eru án sigurs í fimm heimaleikjum í röð.

Þjóðverjar náðu forystunni á 3. mínútu í fyrri leiknum í Duisburg en að þessu sinni tók þá það mínútu lengur að brjóta ísinn. Eftir mark Serges Gnabry á 4. mínútu var eftirleikurinn auðveldur fyrir gestina. Það sem eftir lifði leiks fóru þeir varla úr öðrum gír og þurftu þess ekki. Mark Antonios Rüdiger á 24. mínútu tók svo af allan vafa um það hvernig leikurinn myndi fara. 

Þjóðverjar fengu fjöldan allan af góðum færum í seinni hálfleik en sem betur féllu þau flest Timo Werner í skaut. Leroy Sané skoraði þriðja mark Þýskalands á 54. mínútu en Werner skoraði svo loks mínútu fyrir leikslok. Chelsea-maðurinn hefði hæglega getað skorað 3-4 mörk í kvöld en lét eitt nægja.

Jóhann Berg Guðmundsson komst næst því að skora fyrir Ísland þegar hann skaut í stöng í byrjun seinni hálfleiks.

Íslendingar áttu takmarkaða möguleika í fyrri leiknum í mars þrátt fyrir að stilla upp mun sterkara liði en í kvöld. Að þessu sinni voru möguleikarnir svo til engir og íslenska liðið virtist óþægilega meðvitað um það. Landsliðið stendur á tímamótum og leiðin til baka á stórmót virðist á þessari stundu ekki greið. Hún er þó ekki ófær enda en kynslóðaskiptin sem hafa verið yfirvofandi gætu tekið tíma og orðið nokkuð sársaukafull.

Ísland er áfram í fimmta og næstneðsta sæti J-riðils undankeppninnar með fjögur stig, sjö stigum frá 2. sætinu. Íslendingar eiga fjóra leiki eftir í undankeppninni, tvo heimaleiki í október og tvo útileiki í nóvember.

Sané aftur erfiður

Arnar Þór Viðarsson gerði sex breytingar á byrjunarliðinu frá 2-2 jafnteflinu við Norður-Makedóníu á sunnudaginn. Hannes Þór Halldórsson kom aftur í markið og Jón Guðni Fjóluson inn í miðja vörnina og þeir Brynjar Ingi Bjarnason mynduðu þriðja miðvarðapar Íslands í jafn mörgum leikjum í þessari landsleikjahrinu. Ari Freyr Skúlason, Guðlaugur Victor Pálsson, Jóhann Berg og Þórir Jóhann Helgason komu einnig inn í byrjunarliðið. Sá síðastnefndi byrjaði sinn fyrsta keppnisleik með landsliðinu í kvöld og komst ágætlega frá sínu.

Líkt og í Duisburg olli Sané Íslendingum miklum vandræðum í upphafi leiks. Hann hafði þegar komist einu sinni í hættulega stöðu áður en hann lagði fyrsta mark leiksins upp á 4. mínútu. Joshua Kimmich lagði þá boltann út til vinstri á Sané sem sendi hann fyrir í fyrsta á Gnabry sem skoraði af stuttu færi. Aðstoðardómarinn lyfti flaggi sínu til marks um rangstöðu en eftir skoðun á myndbandi var dómnum snúið við.

Eftir þessa erfiðu byrjun rankaði íslenska liðið við sér og átti nokkra ágæta spilkafla. Einn þeirra skilaði hálffæri hjá Ísaki Bergmann Jóhannessyni sem átti skot sem Manuel Neuer varði út í vítateiginn.

Þjóðverjar tvöfölduðu forskotið á 24. mínútu. Þeir fengu aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Íslendinga, Kimmich tók hana og sendi boltann á vítateiginn þar sem óvaldaður Rüdiger skallaði boltann í fjærhornið. Þremur mínútum síðar fékk Leon Goretzka ágætis færi eftir þýska skyndisókn en Hannes varði.

Jóhann Berg hættulegastur

Íslendingar fengu sitt besta færi í fyrri hálfleiknum á markamínútunni, þeirri 43. Íslenska liðið fékk þá skyndisókn, Albert bar boltann fram vinstri kantinn og fann Ísak sem var fljótur að hugsa og færði boltann yfir til hægri á Jóhann Berg. Í stað þess að skjóta í fyrsta með hægri fæti reyndi hann vinstri fótar skot sem Neuer varði auðveldlega.

Seinni hálfleikurinn byrjaði mjög fjörlega. Á 48. mínútu slapp Werner í gegn en Hannes las hann eins og opna bók og varði. Mínútu síðar fékk Jóhann Berg boltann á hægri kantinum, lék inn á völlinn og átti skot sem small í stönginni fjær. Albert skoraði úr frákastinu en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Á 55. mínútu fengu Þjóðverjar annað dauðafæri eftir skyndisókn en Kai Havertz, sem kom inn á sem varamaður í hálfleik, skaut framhjá er hann var kominn einn gegn Hannesi. Mínútu síðar skoraði Sané þriðja mark Þýskalands með frábæru skoti upp í þaknetið úr þröngu færi eftir sendingu Goretzkas og vandræðagang í íslensku vörninni.

Ótal færi í súginn

Eftir það sem eftir lifði leiks tóku Þjóðverjar lífinu með ró. Þeir áttu samt ekki í vandræðum með að skapa sér færi og sundurspila íslenska liðið ef þeim sýndist svo.

Havertz og Werner voru sérstaklega hættulegir en þeim síðarnefnda var eins og svo oft áður allar bjargir bannaðar upp við mark mótherjans.

Werner tókst þó loks að koma boltanum inn á 89. mínútu. Þjóðverjar sundurspiluðu þá íslenska vörnina á litlu svæði, Havertz fann Werner sem skoraði með skoti sem lak undir Hannes, í stöngina og inn. Eftir langa skoðun á myndbandi var markið dæmt gilt og lokatölur 0-4, Þýskalandi í vil.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira