Geimskoti James Webb-geimsjónaukans (JWST) hefur ítrekað verið frestað í gegnum tíðina, síðast árið 2018 en til stóð að senda hann á loft í júní það ár. Smíði sjónaukans hefur farið vel fram úr kostnaðaráætlunum og nemur kostnaðurinn vel á annað þúsund milljarða íslenskra króna.
Sjónaukanum verður skotið á loft með Arianne 5-eldflaug frá Frönsku Gvæjönu 18. desember. Til stendur að flytja hann þangað fyrir lok þessa mánaðar.
Áfangastaður hans er svonefndur Lagrange-punktur 2, um 1,5 milljón kílómetra frá jörðinni í átt frá sólinni. Það er um fjórföld vegalengdin á milli jarðarinns og tunglsins.
Lagrange-punktur 2 er staður í geimnum þar sem þyngdarkraftur jarðar og sólar jafnast út. Þegar James Webb verður kominn þangað fylgir hann eftir árlegri sporbraut jarðar í kringum sólina. Ferðin að Lagrange-punktinum tekur fjórar vikur, að því er segir í tilkynningu á vefsíðu evrópsku geimstofnunarinnar ESA.
Vegna fjarlægðarinnar verður engin leið að gera lagfæringar á sjónaukanum þegar hann er einu sinni kominn á sinn stað. Hubble-geimsjónaukinn, sem var skotið á loft árið 1990, reyndist gallaður en þar sem hann var á braut um jörðu gátu geimfarar bandarískrar geimskutlu gert við hann.
JWST verður öflugasti geimsjónaukinn til þessa. Spegill hans er 6,5 metrar að þvermál en til samanburðar er spegill Hubble er 2,4 metra breiður.
Ólíkt Hubble, sem er næmur fyrir sýnilegu ljósi, er JWST hannaður til að skoða alheiminn í innrauðu ljósi. Það gerir honum kleift að píra í gegnum stjörnuþokur þar sem stjörnur og sólkerfi fæðast, varpa ljósi á efnasamsetningu andrúmslofts fjarreikistjarna og skyggnast lengra aftur að upphafi alheimsins en hægt hefur verið fram að þessu.