Eftir sigur Blikakvenna í kvöld lá fyrir að liðið færi annað hvort í annan eða þriðja styrkleikaflokk. Það valt á úrslitum í leik Twente og Benfica hvort yrði, en Twente er hærra skrifað en Breiðablik samkvæmt styrkleikalista UEFA en Benfica töluvert lægra.
Cloé Lacasse, fyrrum framherji ÍBV, skoraði þrennu í 4-0 sigri Benfica og því ljóst að Breiðablik færi í annan styrkleikaflokk. Breiðablik er lægst skrifaða liðið þar með 17.000 styrkleikastig, 0.900 meira en Svíþjóðarmeistarar Häcken sem eru efstir í þriðja styrkleikaflokki.
Engin smálið deila öðrum styrkleikaflokknum með Breiðabliki. Sjöfaldir Evrópumeistarar Lyon, lið Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, sem unnu keppnina fimm ár í röð frá 2016 til 2020 væru undir eðlilegum kringumstæðum í efsta flokki en þar sem Paris Saint-Germain vann frönsku deildina í fyrra er Lyon í flokki fyrir neðan.
Wolfsburg, fyrrum lið Söru Bjarkar, væri einnig í efsta styrkleikaflokki ef litið er til styrkleikaröðunar UEFA en hlutu silfur í Þýskalandi, á eftir Bayern Munchen, og eru því einnig í öðrum styrkleikaflokki í ár. Þá er Arsenal frá Englandi einnig í þeim flokki og því ljóst að Breiðablik mætir engu þeirra liða í riðlakeppninni.
Dregið verður í riðlakeppnina mánudaginn næst komandi, 13. september og spennandi verður að sjá hvað kemur upp úr hattinum. Keppni í riðlakeppnini hefst í október.
Að neðan má sjá styrkleikaröðunina fyrir riðlakeppnina sem fram undan er.
Styrkleikaflokkur 1
Barcelona (Spánn) - 104.800 stig
Paris Saint-Germain (Frakkland) - 85.400 stig
Bayern Munchen (Þýskaland) - 84.100 stig
Chelsea (England) - 70.700 stig
Styrkleikaflokkur 2
Lyon (Frakkland) - 124.400 stig
Wolfsburg (Þýskaland) 97.100 stig
Arsenal (England) - 27.700 stig
Breiðablik (Ísland) - 17.000 stig
Styrkleikaflokkur 3
Häcken (Svíþjóð) - 16.100 stig
Juventus (Ítalía) - 15.200 stig
Hoffenheim (Þýskaland) -15.100 stig
Real Madrid (Spánn) - 12.800 stig
Styrkleikaflokkur 4
Z. Kharkiv (Úkraína) - 9.100 stig
Servette (Sviss) - 7.600 stig
Köge (Danmörk) - 6.900 stig
Benfica (Portúgal) - 5.600 stig