Niðurstöður mælinga Gallup fyrir Atvinnulífið síðasta vetur sýna að allt að 75% fólks sem starfaði í fjarvinnu vegna Covid, hefur áhuga á að starfa í blönduðu fyrirkomulagi til framtíðar; að vinna tvo til þrjá daga í fjarvinnu á viku og tvo til þrjá daga á staðnum.
Þessar niðurstöður eru í takt við mælingar erlendis.
Stjórnendur upplifa innleiðingu blandaðs fyrirkomulags þó ekkert endilega eins einfalt og það kannski kann að hljóma. Og sumir eru að upplifa viðspyrnu starfsfólks gegn því að þurfa að snúa aftur á vinnustaðinn.
Í umfjöllun FastCompany er á það bent að viðspyrna starfsfólks við að snúa aftur séu eðlileg viðbrögð. Meðal annars vegna þess að fólk sem hefur starfað mikið í fjarvinnu á tímum Covid, hefur þegar fest sig í rútínu sem hentar vel fjölskyldulífi eða öðrum skyldum utan vinnu, að frítíma sínum eða frístundum og svo framvegis.
Þá sé viðspyrnan líka í takt við mælingar sem sýna svo hátt hlutfall fólks sem hefur áhuga á að starfa í fjarvinnu.
Eins þurfa vinnustaðir líka að hafa í huga að þótt ætlunin sé að bjóða upp á blandað fyrirkomulag, er ekki þar með sagt að sama fyrirkomulagið henti öllum.
Stjórnendur þurfa líka að velta fyrir sér hvað er að skýra það út hjá hverjum og einum, hvers vegna viðkomandi vill helst vinna sem mest í fjarvinnu.
Hefur svefninn til dæmis batnað? Kvíði minnkað? Skýringar geta verið af ýmsum toga og mjög einstaklingsbundnar.
Í umfjöllun Forbes er mælt með því að stjórnendur byrji á því að spyrja eftirfarandi spurninga:
- Hver er ávinningur vinnustaðarins af því að fá viðkomandi aftur úr fjarvinnu?
- Er það nægilega góð ástæða?
- Eða er það bara sú tilfinning eða skoðun stjórnandans að finnast betra að vera með fólkið á staðnum?
Þá er stjórnendum gefin fimm eftirfarandi ráð:
1. Vertu raunsær
Eitt er að vilja bjóða upp á blandað fyrirkomulag fyrir starfsfólk en annað er hvernig það mun ganga. Gera þarf góða greiningu á því hvernig blandað fyrirkomulag getur gengið og á að ganga fyrir sig á vinnustaðnum.
2. Hugsaðu út fyrir boxið
Allt sem hægt er að gera rafrænt eða í fjarvinnu, án þess að afköst eða gæði skerðist, ætti að skoða sem tækifæri fyrir fjarvinnu og fjarvinnutilboð.
Oft er best að heyra í starfsfólkinu sjálfu hvar möguleikarnir liggja og hvaða leiðir væri hægt að fara. Hér skiptir miklu máli að stjórnendur hugsi út fyrir boxið og séu opnir fyrir nýjum og öðruvísi leiðum en áður hafa gilt.
3. Sýndu varkárni í boðum og bönnum
Stjórnendur þurfa að stíga varlega í boðum og bönnum um hið nýja framtíðarfyrirkomulag. Því nú er starfsfólk á vinnumarkaði búið að átta sig á þeim tækifærum sem fjarvinna getur boðið upp á. Stjórnendur vilja ekki missa frá sér hæfileikaríkt fólk vegna fljótfærni um nýjar reglur sem eiga að gilda í hinu blandaða fyrirkomulagi.

4. Sveigjanleiki
Við þekkjum sveigjanleika fjarvinnunnar en stjórnendur þurfa líka að gefa sér svigrúm til þess að prófa sig áfram. Sveigjanleikinn þarf því að vera til staðar þótt blandað fyrirkomulag sé innleitt.
Að leyfa þessu nýja fyrirkomulagi að þróast og þroskast er lærdómsríkt og gott ferli og enginn vinnustaður ætti að gefa sér að vita öll svörin nú.
5. Starfsmannaveltan
Loks þarf að huga að starfsmannaveltunni og framtíðarmarkmiðum vinnustaðarins.
Því vinnustaðir sem ekki ná tökum á því að innleiða blandað fyrirkomulag sem virkilega mælist vel fyrir, eiga á hættu að starfsmannaveltan hjá þeim aukist.
Hér er ítrekað að mjög líklega hentar ekki öllum starfsmönnum að búa til blandað fyrirkomulag þar sem eitt á að gilda fyrir alla. Taka þarf mið af verkefnum, hæfni og vilja hvers og eins.