Slysið átti sér stað á Ameríkuströndinni í bænum Arona á suðvestanverðri Tenerife-eyju um klukkan 16:00 á sunnudag. Toppur pálmatrés hrundi þá skyndilega á fimm íslenskar konur á fimmtugsaldri sem sátu við veitingastað.
Í samtali við Vísi segir ein kvennanna, sem ekki vildi koma fram undir nafni, að þær hefðu verið að skoða matseðilinn þegar toppurinn hrundi á þær fyrirvaralaust. Þær hafi allar lent undir trjátoppnum. Tvær þeirra séu alvarlega slasaðar en hinar með minniháttar áverka.
Þær sem slösuðust meira fóru báðar í aðgerð í nótt og eru nú á gjörgæsludeild. Eiginmaður einnar þeirra sem slasaðist minna sagði Vísi í morgun að fjölskyldur þeirra væru væntanlegar til Tenerife. Þær þrjár sem slösuðust minna væru á leið heim til Íslands annað kvöld.
Í tístinu frá slökkviliði Tenerife hér fyrir neðan má sjá slökkviliðsbíl á vettvangi slyssins við Francisco Andrade Fumero-götu á sunnudag.
Un operativo de #BomberosTF de San Miguel y Voluntarios de Adeje colaboraron con el #SUC en la atención sanitaria de varias personas que recibieron el impacto de un trozo de palmera que cayó en Avda Rafael Puig Lluvina (Las Verónicas). No estaban atrapadas. @112canarias pic.twitter.com/X7UrBYH6Ty
— Bomberos de Tenerife (@BomberosTf) September 12, 2021
Á upplýsingasíðu yfirvalda á Kanaríeyjum kemur fram að þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang hafi konurnar ekki verið fastar undir trénu. Eiginmaðurinn sagði Vísi í morgun að þrír Íslendingar hafi komið konunum til bjargar og náð að lyfta trjáhlutanum af þeim.
Sú sem slasaðist mest var sögð 47 ára gömul og með alvarlega fjöláverka. Önnur 45 ára gömul var mikið marin en ekki talin alvarlega slösuð og sú þriðja, 47 ára gömul, var marin á andliti og með áverka á mjóhrygg en annars ekki talin mikið slösuð.
Konan sem Vísir ræddi við sagði að hvasst hafi verið á sunnudaginn en svo virtist sem að ekkert hafi verið hugsað um trén sem standa við göngugötu. Hún telur að toppurinn sem féll hafi vegið mörg hundruð kíló og að hann hafi hrunið úr fimm til sex metra hæð.
Á mynd sem birtist í staðarmiðlinum Diario de Avisos virðist stofn pálmatrésins hafa gefið sig rétt undir laufkrónunni.