Fulltrúum ríkjanna var nokkuð í mun að taka fram að þessu nýja samstarfi væri hvorki beint gegn Kína né nokkru öðru einstöku ríki. Tilgangurinn sé, að sögn Joe Bidens Bandaríkjaforseta, „að tryggja frið og stöðugleika“.
Í fréttaskýringu AP er þó talið líklegt að Kína muni gefa frekar lítið fyrir þá afstöðu, enda hafa kínversk yfirvöld gagnrýnt Biden fyrir að leggja mikla áherslu á Kyrrahaf í utanríkisstefnu sinni.
Áherslan á þróun kjarnorkuknúinna kafbáta til handa ástralska sjóhernum vekur nokkra athygli þar sem Bandaríkin hafa hingað til aðeins deilt tækniþekkingu á þessu sviði með einu öðru ríki – Bretlandi.

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, þvertók fyrir að takmark þeirra væri að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Ástralar muni, sem fyrr, virða samninginn um bann við útbreiðslu kjarnavopna (NPT) frá 1968.
Engu að síður snöggbreytist staða Ástrala á hafi úti með þessu, þar sem kjarnorkuknúnir kafbátar hafa mun meira drægi en hefðbundnir kafbátar sem ganga fyrir olíu, auk þess sem kafbátafloti kínverska sjóhersins hefur verið þeirra Akkilesarhæll.
Nokkur spenna hefur ríkt í samskiptum Kína og annarra ríkja í Suðaustur-Asíu síðustu ár, þar sem meðal annars hefur verið tekist á um yfirráð yfir hafsvæði á Suður-Kínahafi. Bandaríkin hafa undanfarið lagt hart að bandalagsríkjum sínum að mæta Kína, sem hefur á að skipa stærsta sjóher heims, með meira afgerandi hætti.