Erlent

Þingsætum flokks Pútíns fækkar miðað við fyrstu tölur

Árni Sæberg skrifar
Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AP/Alexei Druzhinin

Þegar tíu prósent atkvæða í rússnesku þingkosningunum hafa verið talin er Sameinað Rússland, flokkur Vladimírs Pútín, með 38 prósent atkvæða. Í síðustu kosningum hlaut flokkurinn 54 prósent atkvæða.

Þingkosningar í Rússlandi eru tvískiptar, annars vegar eru listakosningar þar sem 225 þingsæti eru í boði og hins vegar einstaklingskosningar sem skera úr um hverjir fá hin 225 þingsætin.

Sameinað Rússland er með 38 prósent atkvæða í listakosningunum og 130 sæti í einstaklingskosningunum ef tekið er mið af fyrstu tölum. Því er óvíst hvort flokkur Pútíns muni ná þeim 66 prósentum þingsæta sem þarf til að geta breytt stjórnarskrá landsins.

Samkvæmt frétt AP er vald til stjórnarskrárbreytinga gríðarlega mikilvægt ætli Pútín sér að halda völdum lengur en til 2024.

Sósíalistar sækja í sig veðrið

Sósíalistaflokkur Rússlands mun að öllu óbreyttu vera næststærsti flokkurinn á rússneska þinginu með 25 prósent atkvæða. Í kosningunum árið 2016 hlutu sósíalistar einungis þrettán prósent atkvæða.

Andstæðingar bannaðir og grunur um kosningasvindl

Í aðdraganda kosninganna tilkynntu rússnesk yfirvöld að öll samtök tengd Alexei Navalní væru öfgasamtök og þeim væri því meinað að bjóða sig fram til þings. Navalní hefur um árabil verið einn helsti andstæðingur Pútíns en hann dúsar nú í fangelsi.

Þá hafa tilkynningar um kosningasvindl borist í stríðum straumum allt frá upphafi kosninganna á föstudagsmorgun. Til að mynda hafa kjósendur sagt fjölmiðlum í Rússlandi að vinnuveitendur þeirra hefðu skipað þeim að kjósa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×