Xi fór ekki nánar út í ákvörðun sína en mögulega gæti hún haft veruleg áhrif á fjármögnun kolaorkuvera í þróunarríkjum á næstu árum. Xi hét þó því að Kína myndi hjálpa þróunarríkjum við að koma upp grænni orku.
Kínverjar hafa verið undir töluverðum þrýstingi um að hætta fjármögnun slíkra orkuvera með hliðsjón af markmiðum Parísarsamkomulagsins um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda, samkvæmt frétt Reuters.
Þeir hafa einnig orðið fyrir mikilli gagnrýni vegna fjölda kolaorkuvera í Kína en ríkið er það ríki heimsins sem losar mest af gróðurhúsalofttegundum og kolabruni er stærsta einstaka uppspretta þeirra í heiminum.
Sérfræðinar hafa haldið því fram að Bank of China, sem er í eigu kínverska ríkisins, hafi varið um 35 milljörðum dala í byggingu kolaorkuvera í heiminum frá samþykkt Parísarsamkomulagsins árið 2015.
Sjá einnig: Tugir nýrra kolaorkuvera á teikniborðinu í Kína
Tilkynnt hefur verið um áform um byggingu átján nýrra kolaorkuvera í Kína á fyrri hluta þessa árs og þá liggja fyrir tillögur að 43 til viðbótar. Kínversk stjórnvöld hafa heitið því að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2060.
AFP fréttaveitan segir að í fyrra hafi yfirvöld í Kína reist ný kolaorkuver sem framleiða 38,4 gígawött. Það sé rúmlega þrisvar sinnum meira en ný kolaorkuver framleiddu í öllum heiminum í fyrra.