Fótbolti

Engin ákvörðun tekin um starfslokasamning Guðna

Sindri Sverrisson skrifar
Guðni Bergsson var formaður KSÍ frá febrúar 2017 og þar til að hann hætti í lok síðasta mánaðar.
Guðni Bergsson var formaður KSÍ frá febrúar 2017 og þar til að hann hætti í lok síðasta mánaðar. vísir/vilhelm

Fráfarandi stjórn Knattspyrnusambands Íslands hefur ekki ákveðið hvernig starfslokum fyrrverandi formanns, Guðna Bergssonar, verður háttað.

Málið var rætt á síðasta fundi stjórnarinnar en engin ákvörðun tekin. Næsti fundur verður á þriðjudaginn og stjórnin mun að sögn Ómars Smárasonar, deildarstjóra samskiptadeildar KSÍ, væntanlega funda oftar áður en að aukaþingi kemur á laugardaginn eftir viku, þar sem ný bráðabirgðastjórn tekur við.

„Ég geri ráð fyrir að þessi mál verði rædd á að minnsta kosti einhverjum af þeim fundum,“ sagði Ómar.

Samkvæmt ársskýrslu KSÍ námu laun og bifreiðastyrkur til Guðna á síðasta ári um 19,7 milljónum króna. Það gerir að meðaltali um 1,64 milljón króna á mánuði, þrátt fyrir að formaðurinn hafi tekið á sig launaskerðingu vegna kórónuveirufaraldursins.

Miðað við svar KSÍ við fyrirspurn Vísis, og fundargerð frá síðasta fundi stjórnar, liggur ekki ljóst fyrir hve lengi Guðni mun þiggja laun eða hvernig starfslokasamningi við hann verður háttað.

Ekki viðstaddur aukaþingið

Guðni sagði af sér sem formaður 29. ágúst, eftir að hafa áður boðist til að stíga til hliðar tímabundið. Stjórn KSÍ, sem sagði af sér degi síðar, samþykkti ekki að Guðni myndi víkja tímabundið.

Guðni, sem var kosinn formaður KSÍ árið 2017, hlaut endurkjör árið 2019 og var sjálfkjörinn formaður áfram eftir að hafa verið einn í framboði í febrúar síðastliðnum.

Hann sagði af sér eftir gagnrýni á forystu KSÍ vegna viðbragða, eða skorts á þeim, við sögum af ofbeldi landsliðsmanna.

Guðni sagði í yfirlýsingu sem hann sendi aðildarfélögum KSÍ í vikunni að hann yrði ekki viðstaddur aukaþingið, sem eins og fyrr segir fer fram laugardaginn 2. október.

Vanda Sigurgeirsdóttir hefur ein lýst yfir framboði til formanns á þinginu en framboðsfrestur rennur út á morgun.


Tengdar fréttir

Vanda býður sig fram til formanns KSÍ

Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við mennta-vísindasvið Háskóla Íslands og knattspyrnuþjálfari, hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns Knattspyrnusambands Íslands. Hún greinir frá ákvörðun sinni á Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×