Tónlist

„Förum nú ekki að eyðileggja jólin fyrir fólki“

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Baggalútsmenn gáfu á dögunum út lagið Ég á það skilið. Bragi Valdimar segir þá kappa vera að syngja í sig kjark til þess að byrja að kynna hina árlegu jólatónleika sveitarinnar. 
Baggalútsmenn gáfu á dögunum út lagið Ég á það skilið. Bragi Valdimar segir þá kappa vera að syngja í sig kjark til þess að byrja að kynna hina árlegu jólatónleika sveitarinnar.  Hörður Sveinsson

„Þetta er lag um okkur öll. Við viljum stundum gera svolítið vel við okkur — af því að við eigum það bara skilið,“ segir Bragi Valdimar í samtali við Vísi um nýtt lag sveitarinnar. 

Nýja lag hljómsveitarinnar Baggalúts ber það skemmilega nafn, Ég á það skilið. Guðmundur Kristinn Jónsson.

Lagið, sem kom út síðasta föstudag, ber titilinn Ég á það skilið og er hægt að nálgast lagið á streymisveitunni Spotify. 

Bragi Valdimar segir þá Baggalúta vera rétt að byrja að syngja í sig kjark fyrir kynningu á hinum árlegu jólatónleikum hljómsveitarinnar. 

Við ætlum að setja jólatónleikana í sölu í október. Við eigum það nú aldeilis skilið, og þið öll auðvitað! Förum nú ekki að eyðileggja jólin fyrir fólki.

Það bíða eflaust margir spenntir eftir því að tryggja sér miða á þessa vinsælu tónleika en segist Bragi reikna með því að hljómsveitin tilkynni það á föstudag hvenær miðasalan hefjist, þeir séu enn að ákveða dagsetninguna. 

Ætli þeir eigi það ekki skilið taka sér tíma í þetta svo sem. 

Lagið og textinn er eftir sjálfan Braga Valdimar og eins og sjá má hér neðst í greininni er textinn kaldhæðnislega skemmtileg ádeila á réttlætingu neysluhyggjunnar, sem margir kannast eflaust við.

Og þó. 

Ég á það svo innilega skilið. Eftir allt það sem gengið hefur á.

Texta lagsins má sjá í heild sinni hér fyrir neðan. 



Ég á það skilið

Ég horfi á sólina synda hjá.

Sjóndeildarhringnum hún dansar á.

Fæ mér einn, kannski tvo, jafnvel þrjá.

og hver veit hvað gerist þá.

Sáttur í sófann mér planta

og panta og panta og panta.

— þó mig vanti í sjálfu sér ekki neitt.

Því ég á það skilið.

Ég á það svo sannarlega skilið.

Ég á það skilið.

Ég á það svo innilega skilið.

Eftir allt það sem gengið hefur á.

Á ég það skilið. Svei mér þá.

Ég ætla að grilla mér stóreflis steik

og stelast svo aðeins út í reyk.

Ég ætlað blanda mér bananasjeik

og bregða á framlengdan leik

Ég ætlað skjótast til Tene að tana

og teyga lífið af krana.

— mér er sama hvað öllu og öllum finnst.

Því ég á það skilið.

Ég á það svo sannarlega skilið.

Ég á það skilið.

Ég á það svo innilega skilið.

Eftir allt það sem gengið hefur á.

Á ég það skilið. Ekkert smá.

Ég dagatalið mitt tæmi.

Kaupi tónik og sjittlód af læmi.

þó þið dæmið, er mér rennislétt sama um það.

Því ég á það skilið.

Ég á það svo sannarlega skilið.

Ég á það skilið.

Ég á það svo innilega skilið.

Eftir allt það sem gengið hefur á.

Á ég það skilið. Svei mér þá.

Eftir allt það sem gengið hefur á.

Á ég það skilið. Ójá.

Lagið er gefið út af Alda Music og er í flutningi þeirra Guðmunds Pálssonar og Karls Sigurðssonar.

Aðrir leikendur eru: 

  • Sigurður Guðmundsson, raddir, bassi & hljómborð.
  • Eyþór Gunnarsson, píanó & slagverk.
  • Þorsteinn Einarsson, gítar.
  • Kristinn Snær Agnarsson, trommur & slagverk.
  • Samúel Jón Samúelsson, básúna & útsetning.
  • Kjartan Hákonarson, trompet.
  • Óskar Guðjónsson, saxófónn.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.