Leigjandi sagði að framkvæmdirnar hefðu verið mjög hávaðasamar og stanslaus vinna hafi verið við húsið. Leigjandi hafi því þurft að flýja húsnæðið í tíma og ótíma og hafi mikil vanlíðan fylgt í kjölfarið. Framkvæmdirnar hefðu hafist snemma á morgnana eða rétt eftir klukkan átta á virkum dögum og klukkan tíu um helgar.
Leigusali bar fyrir sig að framkvæmdirnar hefðu legið fyrir í upphafi og þeirra getið í leigusamningnum. Leiguverði væri þar að auki stillt í hóf í samræmi við mögulegt ónæði. Enn fremur hafi verið komið til móts við leigjendur, til dæmis með því að geyma hávaðameiri framkvæmdir þar til eftir hádegi.
Fram kemur að Veitur hafi einnig byrjað framkvæmdir í nærliggjandi götum en verið var að skipta um jarðstreng vegna Landspítala. Leigusali segir að framkvæmdirnar virðast hafa runnið saman við framkvæmdir í húsnæðinu sjálfu.
Leigusali reifar einnig að samskipti hafi torveldast þegar í ljós kom að leigusamningur yrði ekki endurnýjaður við leigjanda en fallið var frá mögulegri endurnýjun leigusamnings, meðal annars vegna meints partýhalds leigjanda. Kvartanir leigjanda hafi aukist jafnt og þétt í kjölfarið.
Kærunefnd húsamála segir í úrskurði sínum að leigjanda hafi ekki tekist að sanna að húsnæðið hafi verið í öðru ástandi en lýst hefði verið í leigusamningi, enda hafi verið tekið fram að framkvæmdir stæðu yfir. Leigjanda hafi heldur ekki tekist að færa sönnur á að framkvæmdirnar hæfust óeðlilega snemma á morgnana. Kærunefndin komst því að þeirri niðurstöðu að leigjandi fengi ekki afslátt af leigugreiðslum.