Fótbolti

Íslendingarnir í Lecce fara saman í skóla til að læra ítölskuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Jóhann Helgason í leiknum á móti Þjóðverjum á dögunum.
Þórir Jóhann Helgason í leiknum á móti Þjóðverjum á dögunum. Getty/Alex Grimm

Lecce er nýjasta Íslendinganýlendan í fótboltanum en þar spila tveir leikmenn íslenska A-landsliðsins, þeir Þórir Jóhann Helgason og Brynjar Ingi Bjarnason.

Þórir Jóhann hitti íslenska blaðamenn á fjarfundi í dag og sagði aðeins frá lífinu á Ítalíu. Hann byrjaði tímabilið með FH en fór til Lecce um mitt sumar. Þórir var síðan kominn í byrjunarliðið á móti Þýskalandi í síðasta landsliðsglugga.

„Þetta er allt mjög fljótt að gerast í fótboltanum ef þú stendur þig vel. Ég hafði drauma um að komast út og það rættist,“ sagði Þórir Jóhann Helgason, miðjumaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu.

„Hjá mér var þetta mjög fljótt að gerast og þetta gerðist á fimm dögum. Ég var mjög áhugasamur um að komast til Ítalíu og byrja atvinnumannaferil minn þar,“ sagði Þórir.

„Þetta eru búnir að vera mjög skemmtilegu þrír mánuðir og við erum búnir að vinna fjóra leiki í röð. Það er allt farið að rúlla eins og það á að gera,“ sagði Þórir. Hann segist hafa tekið góða ákvörðun með að fara út.

„Þetta var mjög gott skref fram á við og ég mjög sáttur við það,“ sagði Þórir. Hann hefur ekki fengið of mikið að spila en er ekkert að örvænta með það.

„Ég er nýkominn inn í þetta og það er erfitt að komast í byrjunarliðið því við erum með sterka miðjumenn. Ég hef fengið að byrja þrjá leiki og var að standa mig þar. Ég er þolinmóður og reyni bara að æfa vel,“ sagði Þórir.

Þórir fagnar því að vera með Brynjar Inga Bjarnason með sér úti.

„Það er mjög gott að hafa einn Íslending með sér og við erum góðir vinir. Við búum saman í íbúð og það er mjög fínt, sérstaklega upp á tungumálið að gera. Við förum saman í skóla til að læra ítölskuna,“ sagði Þórir sem segir að það sé ekkert vesen á þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×