Fótbolti

Hrósa Arnari og Eiði Smára fyrir mannlegu samskiptin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landsliðsþjálfararnir Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson ná vel til yngri leikmanna landsliðshópsins og eru líka tilbúnir að gefa þeim tækifæri.
Landsliðsþjálfararnir Eiður Smári Guðjohnsen og Arnar Þór Viðarsson ná vel til yngri leikmanna landsliðshópsins og eru líka tilbúnir að gefa þeim tækifæri. Vísir/Vilhelm

Elías Rafn Ólafsson og Þórir Jóhann Helgason eru nýkomnir í íslenska A-landsliðið en þeir komu fram fyrir hönd íslenska landsliðshópsins á fjarfundi með íslenska blaðamönnum í dag.

Elías Rafn Ólafsson er markvörður danska liðsins Midtjylland sem var valinn besti leikmaður mánaðarins í dönsku deildinni eftir að hafa spilað fimm leiki í röð án þess að fá á sig mark.

Þórir Jóhann Helgason er miðjumaður Lecce og fékk sitt fyrsta tækifæri í byrjunarliði landsliðsins í keppnisleik á móti Þýskalandi á dögunum.

Elías Rafn og Þórir Jóhann fengu báðir spurningar út í þjálfarateymi íslenska liðsins en þeir þekkja þá vel þrátt fyrir litla reynslu með A-landsliðinu. Báðir hafa þeir félagar spilað undir þeirra stjórn með 21 árs landsliðinu og þá var Þórir einnig undir stjórn Eiðs Smára hjá FH.

„Það er mjög gott að fá að koma til Íslands og fá að hitta félagana. Það á eftir að koma í ljós hvort ég fá að byrja en Arnar og Eiður Smári ákveða það bara. Ég ætla að leggja mig fram á æfingum og gera mitt besta. Hitt verður bara að koma í ljós,“ sagði Þórir sem ber landsliðsþjálfurunum góða söguna.

„Mér finnst þeir flottir þjálfarar sem eru góðir í mannlegum samskiptum við leikmenn,“ sagði Þórir.

„Þeir eru mjög flottir í samskiptum við unga leikmenn, það sá maður hjá U-21 landsliðinu og sér aftur með þá ungu leikmenn sem eru að koma inn núna,“ sagði Þórir.

Elías Rafn tekur líka undir þetta og hefur trú á því að landsliðsþjálfurum takist að setja saman nýtt framtíðarlið.

„Þetta eru sama þjálfarateymið og við vorum með í 21 árs landsliðinu. Þetta er því allt sett svipað upp eins og með taktíkina sem við þekkjum vel. Þetta er samt stig upp á við og það eru alvöru gæði í þessum hóp,“ sagði Elías Rafn.

„Við þekkjum þjálfarana mjög vel og það traust á milli okkar. Ég hef fulla trú að þeir geti búið til alvöru lið úr þessum hóp,“ sagði Elías Rafn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×