Erlent

Alríkisdómari frestar gildistöku laga gegn þungunarrofi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Dómsmálaráðherrann Merrick Garland fagnaði ákvörðun dómarans.
Dómsmálaráðherrann Merrick Garland fagnaði ákvörðun dómarans. epa/Jim Lo Scalzo

Alríkisdómarinn Robert L. Pitman hefur staðfest beiðni bandaríska dómsmálaráðuneytisins um að fresta gildistöku afar umdeildrar löggjafar í Texas, sem bannar þungunarrof eftir sjöttu viku meðgöngu.

Þetta þýðir að ekki verður hægt að framfylgja banninu á meðan tekist er á um lögin fyrir dómstólum. Pitman var harðorður í úrskurði sínum og sagði lögin koma í veg fyrir að konur gætu tekið ákvarðanir um eigið líf, sem væri stjórnarskrárvarinn réttur þeirra.

Dómstóllinn myndi ekki taka þátt í að svipta konur þessum rétti einn einasta dag til viðbótar.

Það er hins vegar óljóst hvað gerist núna; nú þegar hefur heilsugæslustöðvum þar sem þungunarrof voru framkvæmd verið lokað og konur í Texas þurft að leita til annarra ríkja til að sækja þjónustuna.

Þá gerir útfærsla laganna, það að það er sett í hendur almennings að höfða mál gegn þeim sem veita þjónustuna og öðrum sem „stuðla að“ þungunarrofi, það að verkum að hægt er að fara í mál seinna vegna aðgerða sem framkvæmdar eru á meðan frestun gildistökunar stendur.

Forsvarsmenn samtaka sem veita þungunarrofsþjónustu sögðust því í samtali við New York Times vonast til að hægt yrði að hefja framkvæmd hennar að nýju en gátu ekki staðfest hvenær það yrði.

Stjórnvöld í Texas hafa greint frá því að þau hyggist áfrýja niðurstöðu Pitman, sem áminnti yfirvöld og dómstóla í ríkinu að þeim væri óheimilt að framfylgja lögunum á meðan úrskurður hans væri í gildi.

Dómsmálaráðherrann Merrick B. Garland fagnaði ákvörðun dómarans og sagði hana „sigur fyrir konur í Texas og réttarríkið“. Það væri æðsta skylda ráðuneytisins að sjá til þess að stjórnarskráinn væri virt.

New York Times greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×