Fótbolti

„Það er mjög erfitt að pirra mig“

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Þór Viðarsson hefur haft að mörgu að hyggja fyrir landsleikinn gegn Armeníu í kvöld.
Arnar Þór Viðarsson hefur haft að mörgu að hyggja fyrir landsleikinn gegn Armeníu í kvöld. vísir/vilhelm

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari í fótbolta, segir að ungu leikmennirnir í landsliðinu þurfi að læra hratt og vel. Hann ergir sig ekki á því hve marga leikmenn vantar í hópinn að þessu sinni.

Ísland mætir Armeníu á Laugardalsvelli í kvöld og verður að vinna til að halda í veika von um að komast í umspil fyrir HM.

Af ýmsum ástæðum er Arnar nú án fjölmargra leikmanna sem spilað hafa fyrir Ísland á síðustu árum. Suma hefur hann ekki valið og aðrir eru meiddir. Arnar þarf því til að mynda að sækja stig í kvöld án þess að hafa til taks leikmann úr einhverri af fimm bestu deildum Evrópu.

Í hópnum í kvöld eru tveir af þremur leikjahæstu mönnum í sögu landsliðsins, Birkir Már Sævarsson og Birkir Bjarnason með 101 landsleik hvor, en einnig fjórtán leikmenn sem eru 23 ára eða yngri og hafa samtals leikið 62 landsleiki.

Arnar segist ekki láta það fara í taugarnar á sér að geta ekki valið sitt sterkasta lið.

„Ég get alltaf stillt upp mínu sterkasta liði. Ég treysti þeim leikmönnum sem hér eru fullkomlega. Þó að verkefnið sé krefjandi þá er það mjög skemmtilegt. Það er ekkert í boði að vera eitthvað að kvarta og kveina. Við erum með frábæra, unga leikmenn í hópnum. Marga reynda leikmenn líka. Þetta eru bara tækifæri. Ég trúi því að við verðum farnir að taka stig mjög fljótlega,“ sagði Arnar. Viðtalið við hann má sjá hér að neðan.

Klippa: Arnar Þór fyrir leikinn við Armeníu

Meiðsli halda til dæmis Alfreð Finnbogasyni, Herði Björgvini Magnússyni, Sverri Inga Ingasyni og Jóhanni Berg Guðmundssyni frá leikjunum. Svo ekki sé talað um Aron Einar Gunnarsson og Gylfa Þór Sigurðsson sem báðir eru sakaðir um kynferðisbrot og óvíst er að spili fleiri landsleiki. Pirrar þessi staða þjálfarann ekki?

„Það er mjög erfitt að pirra mig,“ sagði Arnar í viðtali við Guðjón Guðmundsson í gær.

Eina krafan að eiga lið sem getur komist á stórmót

Arnar segir að það muni taka tíma að byggja upp nýtt lið og það velti á ungu leikmönnunum hvort það takist á skömmum eða löngum tíma.

„Æskilegt jafnvægi felst í að hafa 17-18 eldri og reyndari leikmenn í landsliðshóp, en 5-7 unga leikmenn. Hjá okkur er þetta alveg öfugt. Þetta getur tekið þrjá mánuði. Þetta getur líka tekið tvö ár. Þetta kemur þegar að ungu leikmennirnir eru búnir að taka öll skrefin, bæði hjá félagsliðum sínum og í landsliðinu. Það er okkar hlutverk að vernda þessa ungu leikmenn líka. Það er mjög auðvelt að henda þeim öllum inn á í 90 mínútur og sjá hvort þeir syndi í land. En við verðum að taka réttu ákvarðanirnar, á réttum tíma, fyrir hvern og einn einstakling,“ segir Arnar.

Ísland fékk eitt stig út úr leikjunum þremur við Þýskaland, Norður-Makedóníu og Rúmeníu í síðasta landsleikjaglugga, með því að gera jafntefli við Norður-Makedóníu.vísir/Hulda Margrét

En er þá ekki hægt að gera kröfu um sigra gegn Armeníu og Liechtenstein?

„Þú mátt gera kröfu. Við förum inn í hvern einasta leik til að vinna hann, að sjálfsögðu. Það má enginn misskilja það. En eina krafan er að eiga gott landslið sem getur komist á stórmót, helst eftir tvö ár.“

Betra að líta til framtíðar en að reyna að snúa ákvörðun Hólmars

Athygli vakti að Arnar valdi Daníel Leó Grétarsson, miðvörð Blackpool á Englandi, í hópinn þrátt fyrir að hann hafi ekki svo mikið sem verið í leikmannahópi Blackpool í síðustu leikjum og ekki spilað leik síðan í ágúst. Kom til greina að velja Hólmar Örn Eyjólfsson, miðvörð Rosenborgar?

„Ég talaði við Hólmar Örn síðast í sumar. Við áttum mjög gott spjall en Hólmar tjáði mér að hann væri hættur í landsliðinu. Að hann væri að einbeita sér að sínu félagsliði og sinni fjölskyldu. Sem þjálfari virðir maður það. Ég tel þá betri kost að líta til framtíðar. Við vitum að við erum að byggja upp og þróa okkar lið, og þá er að mínu mati betra að bíta í gegnum súra eplið og fara í gegnum skaflinn,“ sagði Arnar. Nánar er rætt við hann í viðtalinu hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×