Yfirtaka sádi-arabíska fjárfestingasjóðsins PIF á Newcastle gekk loksins í gegn í gær eftir langan meðgöngutíma. Newcastle er því ekki lengur í eigu Mikes Ashley sem flestir stuðningsmenn félagsins voru komnir með nóg af.
Nýir eigendur Newcastle eru vellauðugir og samkvæmt úttekt Daily Mail eru þeir ríkustu eigendur fótboltafélags í heiminum. Talið er að auðæfi Sádí-Arabanna séu tíu sinnum meiri en auðæfi eigenda Englandsmeistara Manchester City.
Auðæfi nýrra eigenda Newcastle eru metin á 320 milljarða punda. Einu eigendurnir sem komast í hálfkvisti við þá eru eigendur Paris Saint-Germain en auðæfi þeirra eru metin á 220 milljarða punda. Í 3. sæti listans er svo Sheikh Mansour, eigandi City, en auðæfi hans eru metin á 21 milljarða punda.
Búist er við því að nýir eigendur Newcastle muni dæla fjármunum inn í félagið og geri því kleift að kaupa leikmenn í fremstu röð.
Ríkustu eigendur fótboltafélaga
- Newcastle, eigendur frá Sádí-Arabíu - 320 milljarðar punda
- PSG, eigendur frá Katar - 220 milljarðar punda
- Man. City, Sheikh Mansour - 21 milljarður punda
- RB Leipzig og Salzburg, Dietrich Mateschitz - 15,7 milljarðar punda
- Juventus, Andrea Agnelli - 14 milljarðar punda
- Chelsea, Roman Abramovich - 10,5 milljarðar punda
- LA Galaxy, Philip Anschutz - 8,1 milljarður punda
- Arsenal, Stan Kroenke - 6,8 milljarðar punda
- Inter, Zhang Jindong - 6,2 milljarðar punda
- Wolves, Guo Guangchang - 5,2 milljarðar punda