Innlent

Skjálfti af stærðinni 3,2 við Keili

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Upptök skjálftans voru um tvo kílómetra suð-suðvestur af Keili.
Upptök skjálftans voru um tvo kílómetra suð-suðvestur af Keili. Vísir/Vilhelm

Jarðskjálfti af stærðinni 3,2 varð um tvo kílómetra suðsuðvestur af Keili nú á tíunda tímanum. Um er að ræða átjánda skjálftann sem er yfir 3 að stærð í yfirstandandi hrinu.

Þetta staðfestir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við fréttastofu.

„Við höfum fengið tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist á höfuðborgarsvæðinu og uppi í Borgarnesi,“ segir Elísabet.

Skjálftinn varð klukkan 21:19 og mældist á sex kílómetra dýpi, sem er svipað og aðrir skjálftar í yfirstandandi hrinu, sem hófst 27. september. Elísabet segir lítið annað að segja um skjálftann, annað en það sem þegar hafi komið fram í máli sérfræðinga um yfirstandani hrinu.

„Þeir halda sig á sama dýpi og við erum ekki að mæla neinn óróa eða neitt svoleiðis.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×