Veður

Við­búið að margir þurfi að finna bíl­rúðu­sköfurnar

Atli Ísleifsson skrifar
Þótt ekki mælist frost getur samt myndast héla á rúðum, enda er hiti mældur í tveggja metra hæð yfir jörð og getur hiti fallið um allnokkrar gráður niður að jörð.
Þótt ekki mælist frost getur samt myndast héla á rúðum, enda er hiti mældur í tveggja metra hæð yfir jörð og getur hiti fallið um allnokkrar gráður niður að jörð. Getty

Víða er fremur kalt núna í morgunsárið og því viðbúið að margir þurfi að finna sköfurnar til að hreinsa ísingu á bílrúðum. Annars má reikna með hæglætisveðri í dag.

Á vef Veðurstofunnar segir að það verði hæg suðlæg átt og bjart veður í dag, en skýjað með köflum sunnanlands og þurrt að mestu. Hiti verður á bilinu núll til sjö stig, en allvíða næturfrost.

Í fyrramálið má reikna með suðaustan fimm til þrettán metrum á sekúndu og mun rigna, fyrst suðvestantil, en hægari og þurrt norðaustanlands fram á kvöld. Hiti tvö til tíu stig á morgun, hlýjast á Suðurlandi.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að þótt ekki mælist frost geti samt myndast héla á rúðum, enda sé hiti mældur í tveggja metra hæð yfir jörð og geti hiti fallið um allnokkrar gráður niður að jörð. „Og að sama skapi hélar slétt yfirborð eins og bílrúður og lakk auðveldlega.“

Spákort fyrir klukkan 15 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Suðaustan 3-10 og fer að rigna, fyrst SV-lands, en þurrt á NA- og A-landi fram undir kvöld. Hiti 2 til 8 stig.

Á miðvikudag: Breytileg átt og síðan norðan 5-13 með rigningu eða slyddu, en styttir upp SV- og V-lands. Hiti 1 til 9 stig, mildast syðst.

Á fimmtudag: Breytileg átt 3-8 og víða léttskýjað, en suðvestan 8-13 norðvestantil um kvöldið. Hiti 0 til 6 stig, en um eða undir frostmarki á NA- og A-landi.

Á föstudag: Suðvestanátt og dálítil væta S- og V-lands, en bjart með köflum á A-landi. Hiti 2 til 8 stig.

Á laugardag: Norðaustlæg átt og víða þurrt, en lítilsháttar rigning sunnantil og með N-ströndinni. Hiti 2 til 6 stig, en í kringum frostmark norðaustantil.

Á sunnudag: Útlit fyrir suðaustanátt með rigningu og mildu veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×