Viðskipti innlent

Vilja fá öflugustu matar­sprota landsins

Eiður Þór Árnason skrifar
Feed the Viking eru meðal þeirra fyrirtækja sem fóru í gegnum hraðalinn árið 2019.
Feed the Viking eru meðal þeirra fyrirtækja sem fóru í gegnum hraðalinn árið 2019. Aðsend

Þriðja árið í röð stendur Icelandic Startups fyrir viðskiptahraðlinum Til sjávar og sveita sem er sérstaklega ætlaður fyrirtækjum í matvælaiðnaði.

Í ár verður hraðallinn keyrður sem sérstakur markaðshraðall að erlendri fyrirmynd og er hann unnin í samstarfi við GAN – Global Accelerator Network.

Nítján fyrirtæki hafa tekið þátt í Til sjávar og sveita á síðustu tveimur árum og hefur nú verið opnað fyrir umsóknir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandic Startups en óskað er eftir fyrirtækjum sem eru langt komin í vöruþróun, tilbúin með vöru á markað eða hafa byrjað markaðssókn. Umsóknarfrestur er til 1. nóvember og af því loknu verða fimm fyrirtæki tekin inn í hraðalinn.

Er leitað að bestu matarsprotum landsins sem munu í gegnum hraðalinn fá öflugan undirbúning og stuðning fyrir markaðssókn innanlands og utan.

Hraðallinn hefst þann 15. nóvember og lýkur með uppskerudegi þann 10. desember en Nettó er bakhjarl hraðalsins annað árið í röð.

Vilja styðja við útrás íslenskra matvæla

Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, segir þetta í fyrsta sinn sem þau keyri hraðal með áherslu á markaðssókn og útrás.

„Markmiðið er skýrt, við viljum styðja við útrás íslenskra matvæla og teljum þetta vera rétta leið. Svona markaðshraðlar eru sannprófaðir og við gerum þetta með góðum stuðningi frá GAN.”

Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir, markaðsstjóri Samkaupa, Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups og Freyr Friðfinnsson, verkefnastjóri Til sjávar og sveita.Aðsend

Freyr Friðfinnsson, verkefnastjóri Til sjávar og sveita, segir að fyrirtæki af landsbyggðinni hafi tekið virkan þátt fram að þessu og greinilegt að nýsköpun sé þar að koma sterk inn.

„Það er alltaf gaman að tengja frumkvöðla saman sem eru í sama geira en þeir virðast ná sérstaklega vel saman í matvælaiðnaðinum og myndast því alltaf mögnuð stemning í þessum hraðli,“ segir hann í tilkynningu.

Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, segir að keðjan hafi strax séð að hún gæti hjálpað sprotafyrirtækjum að yfirstíga þá áskorun sem það er að koma vörum í verslanir og alla leið til neytenda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×