Sífellt fleiri bætast í hóp þeirra sem hafa kært framkvæmd talningar og meðferð kjörgagna í Norðvesturkjördæmi eftir síðustu Alþingiskosningar.
Nú þegar hefur komið fram að allir frambjóðendur sem duttu út eftir síðari talningu í Norðvesturkjördæmi hafa kært. Þá hafa fimm almennir borgarar einnig sent kæru til Alþingis. Nú þegar hefur komið fram að Katrín Oddsdóttir og Sigurður Hr. Sigurðsson úr Stjórnarskrárfélaginu hafi kært og Þorvaldur Gylfason prófessor.
Björn Leví Gunnarsson fulltrúi Pírata í undirbúningskjörbréfanefnd, sem hefur það hlutverk að taka afstöðu til kæranna, býst við að óskað verði eftir gögnum frá lögreglunni á Vesturlandi á fundi nefndarinnar í dag.
„Ég býst við að beiðni til lögreglu um upplýsingar verði send eftir fund nefndarinnar í dag,“segir Björn.
Hafsteinn Þór Hauksson dósent í Lagadeild Háskóla Íslands sagði á fundi undirbúningakjörbréfnefndar á mánudag að hann sæi ekkert því til fyrirstöðu að þingið rannsaki sjálft kjörgögn en fái líka gögn frá lögreglu. Björn segir að ef tilefni sé til muni nefndin sjálf hefja slíka rannsókn.
„Það er hluti spurninga til lögreglunnar. Ef það er eitthvað athugavert í gögnum frá þeim þá getur verið að við þurfum að skoða efnið sjálf t.d. úr eftirlitsmyndavélum við talningastað,“ segir Björn.
Björn býst við að rannsókn nefndarinnar hefjist á föstudag en mikil vinna hafi farið í undirbúning.
„Það er búið að vera að reyna að setja upp vinnu nefndarinnar þannig að hún stemmi við dóm mannréttindadómstólsins. Við þurfum að tékka í öll slík box,“ segir Björn.
Björn býst við að starfsreglur nefndarinnar verði birtar á vef Alþingis í dag en þingforseti hafi þegar staðfest þær.